Mjúkt „grænt“ aksturslag

Nú þegar eldsneytisverðið á Íslandi stefnir í þær hæstu hæðir sem það hefur nokkru sinni komist í ofanálag við tekjusamdrátt hjá heimilunum er það nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr að nota heimilisbílinn á sem hagkvæmastan hátt. Getum við breytt ökulagi okkar þannig að bíllinn eyði minna eldsneyti? Getum við breytt venjum okkar þannig að við notum bílinn skynsamlegar? Vafalaust!

Fyrir ekki löngu gaf FÍB út bæklinginn „Gerum bílana græna.“ Bæklingurinn er hluti af átaki FiA - heimssamtaka bifreiðaeigendafélaga. Aðalmarkmikð átaksins er að draga sem mest úr neikvæðum áhrifum bílanotkunar á umhverfið með því að leiðbeina ökumönnum um umhverfismildara ökulag. Svo heppilega vill til að bein fylgni er milli umhverfismildara ökulags og eyðslu bíla. Umhverfismildara ökulag hefur í för með sér minni eldsneytiseyðslu og þar með minni útgjöld fyrir þann sem kostar notkun bílsins.

Skipulag

Og nú er sjálfsagt spurt hvernig er þetta mögulegt? Jú, með því að skipuleggja ferðir sínar og reyna að sinna öllum þeim erindum sem krefjast bílnotkunar í einu. Þannig nær bíllinn best að nýta sinn eðlilega vinnsluhita. Bíll sem er eðlilega heitur eyðir miklu minna eldsneyti en kaldur bíll sem notaður til stuttra snattferða en kólnar niður þess í milli. Bíll sem gangsettur er í 0-10 gráðu frosti og ekið 2-5 kílómetra eyðir a.m.k. 40% meira eldsneyti á hvern kílómetra en bíll sem náð hefur eðlilegum vinnsluhita. Lausn á þessum vanda er mótorhitari í bílinn.

Loftþrýstingur

Of lágur loftþrýstingur í hjólbörðum er eins og ákall um meiri eldsneytiseyðslu. Mældu því loftið reglulega í hjólbörðunum og sjáðu til þess að loftþrýstingurinn sé alltaf í samræmi við fyrirmmæli framleiðanda bílsins.

Toppgrind - aukaþyngd

Forðastu að vera með toppgrind og/eða farangur á toppi bílsins í akstri og allan aukafarangur og aukaþyngd í bílnum.

Lausagangur

Láttu ekki vélina ganga lausagang. Hitaðu ekki bílinn upp með því að láta vélina ganga lausagang áður en þú ekur af stað. Aktu strax af stað eftir ræsingu en láttu vélina snúast mjög rólega meðan hún er að hitna.

Mýkt

Temdu þér mjúkt aksturslag. Þeir sem stöðugt eru að tæta af stað á ljósum og bremsa á þeim næstu eyða miklu meira eldsneyti en þeir þyrftu. Reyndu að ná „grænni bylgju“ á götum með ljósstýrðum gatnamótum. Notaðu vélarhemlun (láttu vélina halda við) niður brekkur og þegar hægja þarf á bílnum. Þannig lokast fyrir eldsneytisstreymið til vélarinnar og heildareyðslan snarlækkar.