„Mokið, mokið, mokið meiri snjó“
Nýliðinn desember og það sem af er janúar hafa verið snjóþungir um land allt. Milli jóla og nýárs var mikið fannfergi á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi umferðarvandamálum. Mikið mæðir á bæjarstarfsmönnum við gatnahreinsun. Það þarf að mæta þessum umferðarvandamálum af fagmennsku og festu. Þegar búið er að tryggja umferð um meginleiðir þá verður að greiða fyrir öruggri umferð um íbúðarhverfin. Götur, gangstéttir og göngustíga á að hreinsa. Í borgarsamfélagi eru öruggar samgöngur fyrir akandi, gangandi og hjólandi nauðsynlegar. Hreyfanleiki (Mobility) er fyrir alla.
Athafnalífið hikstar ef samgönguæðar lokast. Tekjur samfélagsins þ.m.t. sveitarfélaganna byggja á öflugu framleiðslu- og atvinnulífi. Hreinsun gatna og gönguleiða skila samfélaginu beinum arði.
Greiðar gönguleiðir tryggja útivist og hreyfingu barna, aldraðra og hreyfihamlaðra. Því miður virðist hreinsun gönguleiða hafa mætt afgangi eftir fannfergið. Það að bera fyrir sig mikinn kostnað við hreinsun er ekki boðlegt. Eðlilega eykst kostnaður vegna mikillar snjókomu og ófærðar . Þessi kostnaður er mismikill eftir árum. Snjóahreinsun þarf að gera upp yfir lengri tímabil en eitt ár. Sveitarfélög hvorki hækka né lækka skatta út frá snjóalögum liðins vetrar.
Á gamlársdag var þíða og væta á Suðvesturhorninu. Lítið bar á snjóhreinsun og hálkueyðingu gatna og stíga þann dag. Veðurspáin gerði ráð fyrir frosti strax á nýári. Vissulega var laugardagur og gamlársdagur en það var auðvelt með tækjum og mannafla að hreinsa gönguleiðir og hryggi í húsagötum.
Mikil snjókoma og viðbrögð við samgöngubresti er eða á að vera hluti af reynsluheimi okkar sem byggjum þetta land og þar með opinberra aðila. Þíðu þarf að nota til að koma í veg fyrir klakabrynjur, erfiða hryggi og slysagildrur á samgönguæðum. Öruggar samgöngur bæta lýðheilsu og draga úr eignatjóni og auka þannig samfélagslegan þrótt með tilheyrandi tekjusköpun.
Kjörnir fulltrúar í sveitastjórnum! Ykkar er ábyrgðin.