Monte Carlo rallið byrjað
Monte Carlo rallið hófst í morgun með setningarathöfn í Monaco og endar á sunnudag 25. janúar fyrir framan höll Alberts prins í Monaco – nema hvar?. Þetta er sú aksturskeppni sem hvað mestur áhugi var fyrir í Evrópu á sjöunda áratuginum þegar Eric Carlsson var stórstjarna keppninnar á Saab bíl með tvígengisvél, og sigursælir bílar komu fram hver eftir annan – bílar eins og Mini Cooper, Renault Alpine og Porsche. Í dag er keppnin í tvennu lagi: Annarsvegar keppa nýjustu rallbílar en hins vegar fornbílarnir frá blómatímanum þegar þeir nýju hafa lokið sér af.
Volkswagen stefnir á að ná þremur efstu sætunum á sunnudaginn kemur og teflir fram þremur glæýjum og stórlega endurbættum VW Polo WRC og bílstjórarnir eru engir meðaljónar. Þeir eru í fyrsta lagi tvöföldu heimsmeistararnir í heimsrallinu (sem Monte Carlo keppnin er hluti af) Sébastien Ogier/Julien Ingrassia, báðir Frakkar. Á bíl númer tvö eru Finnarnir Jari-Matti Latvala/Miikka Anttila og loks Norðmennirnir Andreas Mikkelsen og Ola Fløene. Allir eru þeir þaulvanir erfiðum og breytilegum veðurskilyrðum og færð eins og er oftast í Ölpunum um þetta leyti árs.
Í dag verða eknar tvær sérleiðir sem samtals eru 41 kílómetri að lengd. Keppnin heldur svo áfram á morgun, föstudag 23. jan. Þá verða eknar tvær aðrar sérleiðir norður af Gap í frönsku Ölpunum. Á laugardag verður m.a. lengsta sérleið keppninnar ekin. Lardier et Valença–Faye en hún er 52 km löng. Síðasta keppnisdaginn á sunnudag liggja leiðir upp í hæstu hæðir Alpanna og klassískar sérleiðir þessarar keppni eknar. Þær nefnast Col de Braus og Vol de Turini. Að lokum verður svo ekin loka-sérleiðin sem kallast Power Stage eða Col St Jean–St Laurent. Fyrir góðan árangur þessari sérleið geta þeir sem best standa sig vænst sérstakra viðbótarstiga.
Volkswagen Polo WRC bílarnir þrír hafa samtals 80 dekk til skiptanna meðan á keppninni stendur. Átta þeirra eru með hörðum og sléttum slitfleti, 16 eru mjúk vetrardekk og 24 eru vetrardekk með ofurmjúku gúmmíi í slitfletinum. 24 af vetrarmynstruðu dekkjunum eru negld og 10 eru ónegld. Allt snýst þetta um að mæta mismunandi vetrarfæri með dekkjum sem best hæfa hverju sinni – hvort heldur það er auður vegur, þurr eða votur, krap, sjór eða ís. Veður- og akstursskilyrðin verða örugglega mjög breytileg og því munu aðstoðarmenn keppenda fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á sérleiðum rétt áður en bílarnir verða ræstir af stað svo ráðrúm gefist til að skella undir þá heppilegustu dekkjunum miðað við aðstæður hverju sinni.
Svona fyrirfram má reikna með harðri baráttu um fyrsta sætið í keppninni milli nífalda heimsmeistarans í ralli; Sébastien Loeb sem ekur Citroën og tvöfalda heimsmeistarans Sébastien Ogier á VW Polo WRC. Sébastien Loeb hefur sigrað sjö sinnum í Monte Carlo rallinu en Sébastien Ogier tvisvar.