Mörg alvarlega slys hafa orðið á fyrstu dögum ársins
Það sem af er árinu hafa nokkur alvarleg umferðarslys orðið í umferðinni. Rekja má í vissum tilfellum erfið akstursskilyrði til þessara slysa en nokkrir hafa slasast alvarlega og eitt banaslys hefur orðið.
Fram kom í máli Sævars Helga Lárussonar, rannsóknarstjóra hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við ruv.is að akstursaðstæður hafa verið hreint út sagt slæmar en hver lægðin á fætur annarri hefur gengið yfir landið að undanförnu. Mörg alvarleg slys þar sem akstursaðstæður hafa verið mjög slæmar, hálka í bland við mjög mikinn vind og miklar hviður.
Sævar sagði oft erfitt að átta sig á breytileika veðurs á jafnvel stuttum vegköflum. Það getur verið þokkalega gott hérna í bænum, en svo snarvitlaust uppi á Sandskeiði eða Kjalarnesi. Og fyrir mjög marga er það kannski erfitt að lesa í veðurfarið á Íslandi.
Vetrarfærð er í flestum tilfellum og eru ökumenn hvattir til að aka varlega.
Slæmt ferðaveður er nú á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra þar sem komið hefur til lokana. Steingrímsfjarðarheiði er lokuð og þæfingsfærð er á Þröskuldum og á fjallvegum á sunnanverðum Vestfjörðum.
Snjóþekja og hálka er víðast hvar á Norðurlandi. Ófært er um Vatnsskarð vegna snjóa og veðurs. Stórhríð er á Þverárfjalli og þæfingsfærð, en vegurinn þó ennþá opinn. Lokað er um Öxnadalsheiði vegna veðurs og ekki búist við opnun fyrr en í fyrramálið miðað við veðurspá.