Morgunumferðin rann án truflana

http://www.fib.is/myndir/N1_bensin.jpg

Vörubílstjórarnir sem mótmælt hafa háu eldsneytisverði, háum sköttum og reglum um hvildartíma að undanförnu með því að trufla umferð á samgönguleiðum innan höfuðborgarsvæðisins trufluðu ekki morgunumferðina nú í morgun með aðgerðum. Búist hafði verið við áframhaldandi aðgerðum þeirra en umferðin reyndist tíðindalaus.

Aðgerðir vörubílstjóranna að undanförnu hafa verið gerðar án samráðs við lögreglu en síðdegis í dag verður breytt til og vörubílstjórar taka þátt í skipulögðum mótmælaakstri sem tilkynntur hefur verið lögreglu með löglegum hætti. Þau samtök sem standa að mótmælaakstrinum í dag eru ferðaklúbburinn 4x4 og félag leigubílstjóra. Ekið verður úr Sundahöfn eftir Sæbraut og að Alþingishúsinu við Austurvöll. Aðgerðirnar hefjast kl. 16.00 í dag. Ástgeir Þorsteinsson, formaður Frama, félags leigubílstjóra, sagði við fréttamann Ríkisútvarpsins í áttafréttum í morgun að mótmælin væru skipulögð í samstarfi við lögreglu. Vonast væri eftir mikilli þátttöku í aðgerðunum og að þær næðu athygli stjórnvalda.