Myndir af Chevrolet Volt rafbílnum „láku“ á Netið

http://www.fib.is/myndir/Volt.500.litil.jpg
Chevrolet Volt í framleiðsluútgáfu.

Myndir af endanlegri framleiðslugerð rafmagnsbílsins Chevrolet Volt birtust óvænt á heimasíðu GM sl. mánudag. Blaðamenn netútgáfu Auto Motor & Sport rákust á myndirnar og hlóðu þeim niður í skyndingu, en nokkrum mínútum síðar voru þær horfnar – höfðu verið fjarlægðar af GM heimasíðunni.

Frá því að fyrsti Chevrolet Volt hugmyndar-rafbíllinn var sýndur á bílasýningum í Bandaríkjunum og Evrópu hefur framleiðsluútgáfu hans verið beðið með nokkurri eftirvæntingu og stjórnendur GM hafa verið iðnir við að auglýsa fyrirætlanir sínar með hann. Upphaflega var Chevrolet kynntur sem hreinn rafbíll, en nú er framleiðsluútgáfa hans sögð nokkurnveginn tilbúin en ekki sem hreinn rafbíll, heldur tegiltvinnbíll. Í honum verður ljósavél sem framleiðir straum inn á geyma á langferðum eða þegar ekki er ráðrúm til að stinga honum í samband við rafmagnsinntungu. En útlit bílsins er þegar orðið klárt og er hann sagður koma í almenna sölu árið 2011.

En var myndbirtingin á vef GM slys, eða úthugsað markaðsbragð? Vefmiðillinn Auto Observer í Bandaríkjunum greinir frá því að markaðsstjórar bílaiðnaðarins telji að myndunum hafi verið lekið með vilja til þess að auka á spenninginn fyrir bílnum. Framundan sé 100 ára afmælishátíð GM og í tengslum við hana henti það ágætlega að sýna GM sem framsækið fyrirtæki og þannig að snúa við ímynd hins þjakaða risa sem kominn er að fótum fram. Þar við bætist að gömlu amerísku bílarisarnir þrír, GM, Ford og Chrysler séu í sameiningu að reyna að herja út 50 milljarða lán hjá stjórnvöldum á lágum vöxtum. Lánið á að nota til að kosta rannsóknir, tilraunir og þróun nýrra véla og orkugjafa fyrir bíla og nýrra framleiðsluhátta í því skyni að fá fram sparneytnari bíla. Chevrolet Volt sé einmitt táknmynd nýrra tíma í þessum efnum.

Sjá myndirnar hér fyrir neðan.

http://www.fib.is/myndir/Volt.500.jpg

http://www.fib.is/myndir/Volt.FrankWeber.2.500.jpg

http://www.fib.is/myndir/Volt.TonyPosawatz.jpg