N1 og Olís hækka eldsneytisverð
N1 og Olís hækkuðu í dag verðið á dísilolíulítra um 3 krónur þannig að lítrinn af dísilolíu kostar nú 259,60 krónur hjá félögunum. N1 og Olís hækkuðu bensínið um 1 krónu á lítra þannig að lítraverðið er 247,80 krónur. Íslenska krónan veiktist gagnvart Bandaríkjadal í morgun en dísilolía lækkaði á Evrópumarkaði í gær. Að teknu tilliti til gengis þá lækkaði dísilolía lítilega við lokun markaða í gær. Hráolía á Norður Evrópu markaði hefur heldur lækkað í verði fram eftir degi í dag.
Í stuttu máli þá er þessi hækkun hjá N1 og Olís vegna hækkunar álagningar hjá félögunum en ekki vegna „ytri“ aðstæðna .
Önnur félög á markaðnum hafa ekki hækkað eldsneytisverð hjá sér þegar þetta er ritað. Ódýrust er dísilolían hjá Orkunni en þar kostar lítrinn 256,20 krónur. Hjá Atlantsolíu og ÓB kostar dísillítrinn 256,30 krónur. Bensínlítrinn kostar 246,40 krónur hjá Orkunni og 10 aurum meira hjá Atlantsolíu og ÓB.