Næsta kynslóð Saab 9-5 verður eftir allt saman byggð í Svíþjóð

http://www.fib.is/myndir/ChevyMalibu2007.jpg
Chevrolet Malibu 2007. Nýr Saab 9-5 verður byggður á sama grunni.

General Motors virðist hafa lagt á hilluna áætlanir um að byggja næstu kynslóð Saab 9-5 í Opelverksmiðjunum í Rüsselsheim, útborg Frankfurt í Þýskalandi. Auto Motor & Sport í Svíþjóð segir að stjórn GM hafi áttað sig á því að svo mikið liggi á að koma fram með nýja kynslóð Saab 9-5 að ekki gangi að bíða eftir framleiðslurými hjá Opel fram til ársins 2010. Því verði nýi Saabinn byggður í Trollhättan eftir allt saman.

Allt eru þetta óstaðfestar fréttir að sögn blaðsins sem segir að heimildarmenn séu trúverðugt innanhússfólk hjá GM sem alls ekki þori að koma fram undir nafni. En mergur máls sé sá að stytta þurfi líftíma Evrópugerða GM og endurnýja þær oftar en gert hefur verið undanfarin ár. Mjög áríðandi sé að endurnýja Saab 9-5 sem allra fyrst, enda er hann mikilvægasta gerð Saab, en orðinn ansi framorðinn og hætta á minnkandi eftirspurn af þeim sökum. Það hreinlega gangi ekki að bíða með framleiðsluna þar til framleiðslupláss losnar í Rüsselsheim árið 2010

Vitað er að næsta kynslóð Saab 9-5 verður byggð á GM-grunplötu sem nefnist Epsilon II. Hönnunarvinna við nýja Saabinn er reyndar komin vel á veg í þeim skilningi að flestir „Legókubbarnir“ í hann eru þegar tlbúnir. Þannig er sambærilegur bandarískur bíll byggður á fyrrnefndri Epsilon II grunnplötu. Sá nefnist Chevrolet Malibu. Hin nýja 2007 árgerð af Malibu er þegar komin í fulla framleiðslu í Bandaríkjunum og er að koma á þarlendan bílamarkað þessa dagana.

En hvers vegna skyldi nú allt í einu fyrirfinnast framleiðslurými í Trollhättan? Jú, það er vegna þess að sala á Evrópugerð Cadillac sem byggður er í Trollhättan – Cadillac BLS - hefur nánast engin verið og miklu minni en GM reiknaði með. Þar hefur því losnað rými til að framleiða bíl sem eftirspurn er eftir í stað bíls sem enginn vill.