Nammi Box – einstaklega ódýr rafbíll fyrir Evrópu

Kínverski rafbíllinn Nammi Box gæti haft töluverð áhrif á evrópska rafbílamarkaðinn á næstu árum. Miðað útsöluverð bílsins má gera ráð fyrir sterkum viðbrögðum frá framleiðendum samkeppnisbíla. Einn helsti samkeppnisbíllinn er Citroën ë-C3 sem í ódýrustu útgáfunni kostar um 3.000 svissneskum frönkum (CHF) eða um 500 þúsund krónum meira en Nammi Box í Sviss.

Nammi Box er framleiddur af risastórum kínverskum bílaframleiðanda Dongfeng, sem kom inn á evrópska markaðinn fyrr á árinu með rafbílinn Voyah. Dongfeng hyggst hasla sér enn frekari völl á evrópskum bílamarkaði. Nú þegar er hægt að panta Nammi Box í Sviss en brátt verður bíllinn fáanlegur í mörgum öðrum Evrópulöndum. Auglýst verð í Sviss er ríflega 3.5 mkr og þar í landi er Nammi Box töluvert ódýrari en samkeppnisbílarnir Citroën ë-C3 og BYD Dolphin.

Til þess að komast undan nýjum refsitollum Evrópusambandsins á kínverska bíla áformar Dongfeng að byggja verksmiðju á Ítalíu þar sem fyrirhugað er að framleiða Nammi Box í framtíðinni. Ítölsk stjórnvöld undir stjórn Giorgia Meloni hafa áhuga á að efla bílaframleiðslu á Ítalíu í samstarfi við erlenda framleiðendur. Samkvæmt fréttum eru viðræður ítalskra stjórnvalda og Dongfeng í góðum farvegi.

Nammi box verður fáanlegur í nokkrum áberandi litum og minnir að hluta á Smart bílana og nýtir tækni frá Geely. Nammi Box er með 95 hestafla rafmótor, 42 kWh rafhlöðu og 310 km drægni samkvæmt WLTP staðlinum.

Nammy Box er 402 sentimetrar að lengd og 326 lítra farangursrými Þegar aftursætið er lagt niður er farangursrýmið allt að 945 lítrar.

Nafnið á bílnum Nammi Box, er nokkuð skondið á íslensku. Nammi Box gæti freistað framleiðendur og söluaðila sælgætis og annars munngætis til dreifingar og sölu á sínum afurðum. Ekki er ólíklegt að innan fárra missera verði Íslendingar farnir að ferðast um í Nammi Boxi.