Námskeið í repjudísilbílum
Framvegis munu allir nemar í bifvélavirkjun á Borgundarhólmi þurfa að taka sérstakt námskeið til að geta útskrifast. Á námskeiðinu er nemunum kennt að gera nauðsynlegar breytingar á dísilbílum til þess að þeir gangi örugglega á repjuolíu (matarolíu) í stað venjulegrar dísilolíu allan ársins hring. Það eru samtök á Borgundarhólmi sem heita Bornholms Miljø- & Energiforening, eða umhverfis og orkumálafélag Borgundarhólms sem hefur útbúið námsefnið í samvinnu við iðnskólann á eynni.
Umhverfis- og orkumálafélagið ætlar að bjóða öllum starfandi bifvélavirkjum upp á þetta námskeið sem eftirmenntunarnámskeið. Það verður gert í samvinnu við stéttarfélag bifvélavirkja sem þá greiðir námskeiðsgjöldin fyrir félagsmenn sína.
Á Borgundarhólmi er repja ræktuð í stórum stíl til eldsneytisframleiðslu fyrir bíla. Talsvert stórum hluta dísilbílaflota eyjarskeggja er ekið á repjuolíu eingöngu. Þar sem svonefnt blossamark repjuolíunnar er lægra en venjulegrar bíladísilolíu þarf að aðlaga dísilvélar að repjuolíunni.
En það er líka hægt að blanda steinolíu í repjuolíuna til að hækka blossamarkið og þá þarf ekki að aðlaga bílvélina. Blöndunarhlutfallið er venjulega einn hluti á móti 10 af repjuolíu. En steinolían þarf að vera af þeirri gerð sem kallast nafta. Hægt er að nálgast nafta mjög víða því að kveikilögur sá sem notaður er til að kveikja upp í kollagrilli er oftast hreint nafta.