Neðansjávar-vegbrýr undir norska firði?
Í Noregi velta vegagerðarmenn og ráðgjafarverkfræðingar fyrir sér þeirri hugmynd að brúa tvo breiða og djúpa firði á vesturströnd Noregs með því að byggja neðansjávar-hengbrýr undir sjávarborðinu. Þetta verða mikil steinrör hangandi í strengjum neðan úr risastórum flotholtum á sjávaryfirborðinu. Sjálf vegrörin þar sem bílar bruna um á 110 km hraða eiga að verða á 20-30 metra dýpi, verði hugmyndin einhvern tíman að veruleika og spurning hvort þeir sem í bílunum aka verði ekki bullandi sjóveikir.
Allt hljómar þetta mjög ótrúlegt enda hefur bílvegur af þessu tagi aldrei verið lagður áður. Tæknin er þó til í norskri olíuvinnslu af sjávarbotni. Þar eru svona göng þekkt og þrautreynd, en reyndar í miklu smærri mælikvarða en hér er talað um. Hugmyndin þykir áhugaverð þar sem hún er talin fala í sér raunhæfan möguleika til að koma á greiðu vegasambandi milli fjarðanna á Vesturströndinni og leggja af þær fjöldamörgu bílaferjur sem nú halda vegasambandinu milli fjarðanna á þjóðleiðinni E39 milli Kristjánssands og Þrándheims. Búið er á mörgum undanförnum árum að gera þessa 1.100 km löngu leið greiðari. Búið er að bora fjöldamörg veggöng og byggja brýr yfir stuttu firðina á leiðinni en nú er komið að erfiðustu köflum leiðarinnar sem eru breiðustu og dýpstu firðirnir. Sumir þeirra eru allt að 1,3 kílómetra djúpir sem þýðir að útilokað er að byggja brúarturna upp af botni þeirra. Þá eru þeir sumir mjög breiðir, eins og t.d. Sognefjörður sem er 3,7 km þar sem væntanleg vegtenging þarf að vera og Bjørnafjörður sem er um 5 km breiður. Það mun vera verkfræðilega tvísýnt og fjárhagslega útilokað að setja upp hengibrú yfir slíkar vegalengdir.
Því skoða menn nú rörabrýr yfir þessa tvo firði í fúlustu alvöru. Í hugmyndunum felst að búa til tvö vegrör sem hvort um sig verður með tveimur akreinum í eina átt, gangstétt, reiðhjólarein og neyðarakrein. Með stuttu millibili verða svo flóttaleiðir milli meginröranna svo fólk geti forðað sér ef stórslys skyldi verða. Við hönnunina verða verkfræðingarnir að gera ráð fyrir sjávarföllum og straumum enda eiga rörin að hanga í strengjum sem festir eru við risavaxin flotholt uppi á yfirborðinu. Rörin verða að vera á nægilega miklu dýpi til að ekki sé hætta á því að stærstu skip reki ekki botninn í þau. En auðvitað gætu skip rekist á flotholtin, en af því hafa verkfræðingarnir ekki stórar áhyggjur. Ekkki muni skapast mikil hætta á að rörin bresti þótt eitt flotholtanna eyðilegðist. Hvað varðar hættu á sjóveiki er hún sögð vart nein, enda þótt rörin séu bæði lítilsháttar sveigjanleg þá verði hreyfingar á þeim varla merkjanlegar. Þau muni fljóta á það miklu dýpi að öldugangs gæti lítt.