Negld vetrardekk eða ónegld?
Nú lítur út fyrir það að borgaryfirvöld í Stokkhólmi muni ekki banna alfarið notkun negldra vetrardekkja, eins og til stóð, heldur leggja á notkun þeirra sérstakt gjald; 36.600 ísl. kr. til að draga úr svifryksmengun og bæta andrúmsloftið í borginni á komandi vetri. Það er Auto Motor & Sport í Svíþjóð sem greinir frá þessu.
Mikið hefur verið rökrætt í grannlöndunum um negld vetrardekk ekkert síður en hér á Íslandi. Negldu dekkin eru sögð rífa upp vegyfirborð og valda svifryksmengun og því vera heilsuspillandi. Ýmsar prófanir hafa verið gerðar á þessu og niðurstöður hafa verið sitt á hvað. Þannig er vart hægt að tala um að óyggjandi sannanir hafi fundist fyrir því að nagladekkin séu megin svifryksvaldurinn, hvorki hér né annarsstaðar.
En allar vandaðar prófanir á vetrarhjólbörðum undanfarin mörg ár hafa staðfest að góðir negldir vetrarhjólbarðar eru öruggastir undir bílnum í vetrarfærinu, enda þótt framleiðendur gæðahjólbarða hafi síðustu árin komið fram með svo góða óneglda, að þeir hafa nálgast umtalsvert negldu hjólbarðana og taka meira að segja þeim slökustu fram hvað öruggt grip varðar.
Það skal því enn og aftur áréttað hér að bifreiðaeigendur geri hver sína þarfagreiningu út frá búsetu og akstursþörfum þegar valin eru vetrardekk. Ekki er vafi á því að íbúar margra hverfa í höfuðborginni þurfa minna á því að halda að aka á negldum hjólbörðum, en t.d. íbúar í uppsveitum Árnessýslu og Skagafjarðardölum.
Vetrarveðurfar á Íslandi er óstöðugt og talsvert mismunandi eftir landshlutum. En sameiginlegt er þó að votviðri eru algeng og bleyta og krap á slitnum vegum og götum kalla á hjólbarða sem ryðja vel frá sér vatninu og ekki eru gjarnir á að fljóta upp. En þegar slíkt gerist verður bíllinn stjórnlaus. Dekk sem vel duga í bleytu og krapi eru nauðsynleg fyrir alla. Naglarnir eru hins vegar sumum nauðsynlegri en öðrum. Svo einfalt er það og FÍB telur það mjög varhugavert að fara þá leið að skattleggja öryggisbúnað, sem naglarnir eru við tilteknar aðstæður, eins og Stokkhólmsyfirvöld nú hyggjast gera.