New York lögreglan á rafbíla
Michael R. Bloomberg borgarstjóri New York borgar sem er áhugamaður um umhverfismildari samgöngur og hreinna loft yfir borginni hefur látið innkaupastofnun borgarinnar kaupa 50 nýja Chevrolet Volt rafbíla handa lögreglu og slökkviliði borgarinnar. Bílarnir verða hluti af eftirlitsbílaflota þessara stofnana. Á myndinni er verið að afhenda fyrsta rafbílinn og borgarstjóri er í ræðustóli.
Áður hefur Bloomberg haft frumkvæðí að endurnýjun þess hluta leigubílaflota borgarinnar sem telst til almannasamgöngukerfisins. Nýju leigubílarnir eru bæði þægilegri og miklu eyðslugrennri en gömlu Ford Crown Victoria risaeðlurnar sem þjónað hafa fólki undanfarna áratugi, ekki síst á Manhattan eyju. Sjá FÍB-frétt.
Nýju Chevrolet Volt bílarnir eru rafbílar með ljósavél. Þeim er stungið í samband við rafstraum til hleðslu þegar þeir eru ekki í notkun og komast allt að 80 kílómetra á fullhlöðnum geymunum. Ljósavélin í bílnum tekur svo við þegar straumurinn gengur til þurrðar á geymunum.