NextEV - nýr ofurrafbíll
Hópur stöndugra fjárfesta sem tengdir eru Kína hefur ráðið Martin Leach fyrrverandi framkvæmdastjóra Ford í Evrópu til að stjórna nýju bílaframleiðslufyrirtæki í Kína sem á að framleiða á lúxus-rafmagnsbíla undir vörumerkinu NextEV. Rafbílar þessir eiga að keppa við Tesla rafbílana. Fjárfestarnir eru m.a Tencent og Hillhouse sem er bakhjarl leigubílaþjónustunnar Uber. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.
Fjárfestahópurinn hefur þegar ráðið hóp bílaverkfræðinga og sérfræðinga til starfa. Allir eiga þeir að baki góðan starfsferil hjá öðrum bílaframleiðendum eins og Ford, Tesla, BMW, Volkswagen o.fl. Fjárfestarnir að baki NextEV hafa flestallir verið áberandi í kínverskum hátækniiðnaði og tölvuiðnaði og Netverslun en hafa fæstir tengst bílaiðnaði og bílaframleiðslu til þessa. Auk Tencent og Hillhouse-hópanna áðurnefndu koma að málinu aðilar eins og Alibaba (aliExpress netverslunin), Xiaomi Technologies og Leshi.
Ricardo Reyes talsmaður Tesla sagði við Reuters í gær að hann fagnaði allri samkeppni hvort sem hún kæmi frá grónum bílafyrirtækjum eða vel fjármögnuðum nýgræðingum í bílaframleiðslu. Sérstaklega sé það gleðilegt að Tesla S væri sá bíll sem menn vildu miða sig við.
Bílaverksmiðja NextEV er í Shanghai en þegar hafa verið stofnuð útibú í Evrópu og Bandaríkjunum með hugsanlega bílaframleiðslu þar fyrir augum síðar meir. Fyrsti framleiðslubíll NextEV verður rafknúinn ofurbíll og fjölmiðlafulltrúi NextEV segir við Reuters að bíllinn eigi eftir að skáka öllum þeim bensínknúnu ofurbílum heimsins sem nú fyrirfinnast, út í hafsauga. Fyrsti fjöldaframleiddi NextEV bíllinn komi fram strax á næsta ári. Hann verði rúmlega þúsund hestafla og nái hundraðinu á innan við þremur sekúndum.. Í kjölfar þessa ofurbíls komi svo öflugir fjölskyldubílar hver af öðrum.
NextEV er reyndar ekki alger nýgræðingur í því að byggja bíla, því að fyrirtækið hefur byggt rafknúna Formúlu-kappakstursbíla en rafmagns-formúlan er viðurkennd kappakstursgrein sem dregur að sér stöðugt fleiri áhorfendur (og auglýsendur).