Neytendur borga uppbyggingu og rekstur bensínstöðva í formi hærri álagningar
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, fagnar áformum Reykjavíkurborgar um að fækka bensínstöðvum um helming á næstu árum.Runólfur telur að fækkunin hafi í för með sér lægra eldsneytisverð. Þetta kom fram í máli hans á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
„Við höfum í mörg ár sagt að hér séu allt of margar bensínstöðvar. Hver borgar fyrir uppbyggingu og rekstur bensínstöðva? Það eru neytendur í formi hærri álagningar. Þetta er í rauninni þess eðlis að við höfum séð þessa þróun í nágrannalöndunum fyrir löngu síðan þar sem bensínstöðvum hefur snarfækkað.“
Stefna Reykjavíkurborgar verður að bensínstöðvum muni fækkað um helming fyrir árið 2025 og áætlað er að þær verði örfáar árið 2040. Runólfur segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi sé bensínstöð Costco í Garðabæ með um 10 prósent af markaðnum. Því sé ljóst að restin af markaðnum dreifist á margar aðrar bensínstöðvar.
Í viðtalinu við Runólf Ólafsson var farið um víðan völl en viðtalið í heild sinni má nálgast hér.