Nissan bílar frá Englandi til Japans
Nissan Qashqai.
Sl. föstudag lagði bílaflutningaskip af stað frá Bretlandi til Japans. Farmurinn er Nissan Qashqai bílar sem byggðir eru í verksmiðju Nissan í Sunderland. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem „japanskir“ bílar byggðir í Englandi eru fluttir til Japans. Síðast gerðist það árið 1996 en þá var um að ræða Nissan Primera bíla sem byggðir voru í Englandi en ekki í Japan.
Qashqai mun ekki verða markaðssettur í Japan undir þessu sérkennilega og lítt þjála nafni heldur fær hann í Japan nafnið Dualis. Framleiðsla á Qashqai hófst í verksmiðjunni í Sunderland í desembermánuði sl. og nú hafa yfir 20 þúsund bílar verið byggðir.
Trevor Mann aðstoðarforstjóri Nissan í Bretlandi segir í samtali við veffréttir tímaritsins Auto Industry að Nissan bílar byggðir í Bretlandi séu fluttir út til 45 landa, en það sé óneitanlega mjög sérstakt þegar breskir Nissanbílar eru fluttir út til móðurlandsins Japans. Hann segist sannfærður um að Qashqai eigi eftir að falla Japönum vel í geð enda hafi hann allt til þess sem þarf.
Nissan Qashqai lhefur leyst af hólmi bæði Nissan Almera og Primera og er einskonar aðalfólksbíll Nissan í Evrópu ásamt smábílnum Nissan Micra.