Nissan dregur saman seglin í Sunderland
Japanski bílaframleiðandinn Nissan hefur ákveðið að framleiðsla á Nissan X-Trail muni flytjast frá bresku borginni Sunderland aftur til heimalandsins. Þessi ákvörðun er að mestu rakin til óvissunnar við úrsögn Breta úr Evrópusambandinu.
Nissan hefur rekið verksmiðjuna í Sunderland í rösk 35 ár og þar vinna um sjö þúsund manns. Í upphafi höfðu bresk verkalýðsfélag töluverðar áhyggjur af þessi ákvörðun bílaframleiðandans og töldu að í framhaldinu myndu einhverjir missa vinnuna en Nissan hefur tilkynnt að engin fækkun verði á starfsmönnum í kjölfar þessarar ákvörðunar. Gerðar verða ákveðnar skipulagsbreytingar og starfsmenn munu flytjast á milli deilda.
Bresk stjórnvöld eru allt annað en ánægð með ákvörðun Nissan-verksmiðjanna og óttast að aðrir bílaframleiðendur geri slíkt hið sama. Forsvarsmenn Honda hafa í hyggju að færa hluta framleiðslu sinnar í borginni Swindon úr landi. Þar gætu yfir þrjú þúsund manns átt á hættu að missa vinnuna ef þau áform ganga eftir.
Fleiri bílaframleiðendur, sem reka bílaverksmiðjur á Englandi, hafa í hyggju að fara að fordæmi Nissan og flytja ákveðna framleiðslu úr landi. Talað er um að ekkert fyrirtæki geti búið við þessa óvissu og því þurfi fyrr en síðar að grípa til aðgerða.