Nissan Leaf er bíll ársins 2011!
Bíll ársins í Evrópu 2011 er rafbíllinn Nissan Leaf. Þetta er tímamótaviðburður. Aldrei í rúmlega aldar langri sögu bílsins hefur rafbíll náð jafn langt og aldrei áður hefur rafbíllinn verið nær því að verða raunverulegur valkostur almennra bifreiðaeigenda.
Það voru 57 bílablaðamenn frá 23 Evrópulöndum sem kusu Nissan Leaf bíl ársins 2011. Talsmaður valnefndarinnar, Svíinn Håkan Matson blaðamaður við Dagens Industri, segir að Nissan Leaf sé sá bíll sem hefur brotið ísinn fyrir rafbílana enda standi hann á margan hátt jafnfætis hefðbundnum fólksbílum hvað varðar notagildi og aksturseiginleika.
Ekki verður annað sagt en valið á bíl ársins í Evrópu að þessu sinni komi á óvart. Bílaáhugamenn sem fylgjast vel með bílaheiminum bjuggust yfirleitt ekki við þessu enda er Nissan Leaf ekki einu sinni fáanlegur ennþá sem jafnan hefur verið eitt af skilyrðunum fyrir því að bílar kæmu til greina. Tímaritið Auto Motor & Sport í Svíþjóð spurði lesendur sína hvaða bíll þeir teldu að ynni titilinn að þessu sinni. Einungis 6,3 prósent svarenda veðjuðu á rafbílinn. Flestir, eða tæp 40 prósent veðjuðu hins vegar á hinn nýja Alfa Romeo Giulietta.
Sjö bílar af 40 sem upphaflega komu til greina náðu í úrslit. Niðurstaða kosningar valnefndarinnar um hver yrði bíll ársins af þeim sjö sem í úrslit komust, fór sem hér segir:
1. Bíll ársins 2011: Nissan Leaf, 257 stig
2. Alfa Giulietta, 248 stig
3. Opel/Vauxhall Meriva, 244 stig
4. Ford C-Max/C-Max Grand, 224 stig
5. Citroën C3/DS3, 175 stig
6. Volvo S60/V60, 145 stig
7. Dacia Duster, 132 stig