Nissan Murano - sá öruggasti í USA
Nissan Murano.
Bandaríska stofnunin IIHS (Insurance Institute for Highway Safety) hefur nýlega árekstursprófað nokkra meðalstóra jeppa og jepplinga. Sá öruggasti í þessu prófi reyndist vera Nissan Murano og fékk hann umsögnina „Top Safety Pick" sem útleggst gæti öruggasti kosturinn. Nissan Murano hlaut hæstu einkunn fyrir öryggi í öllum greinum árekstra sem prófað er í hjá IIHS, það er að segja framaná-, aftaná-, og hliðarárekstri.
Sú slæma útreið sem pallbíllinn Nissan Navara hlaut nýlega í árekstursprófi EuroNCAP og mikið hefur verið fjallað um í íslenskum fjölmiðlum undanfarið, er enganveginn hægt að yfirfæra á Nissan bíla almennt. Pallbíllinn er í grunninn margra ára gömul hönnun og um árangur hans má segja að hann sé einsdæmi fyrir tegundina almennt.
Murano er hins vegar nýleg hönnun og sömu sögu er að segja um Nissan Qashquai jepplinginn sem fyrir nokkru var árekstursprófaður hjá EuroNCAP. Nissan Qashquai kom þannig út að hann er sá bíll sem flest öryggisstig hefur hlotið í árekstursprófi hjá EuroNCAP nokkru sinni og er þannig einn öruggasti bíll sem völ er á. Nissan/Renault samsteypan framleiðir í dag líklega hlutfallslega flesta fimm stjörnu bíla í heiminum í dag af öllum stærðum og gerðum fólksbíla.
Nissan Murano stóðst langbest aftanákeyrslu af þeim bílum sem IIHS prófaði í þessari lotu. Hann reyndist eini bíllinn sem taldist veita góða vernd í slíkum árekstrum. IIHS telur þetta vera mjög mikilvægan eiginleika því að aftanákeyrslur eru algengustu umferðarslysin í Bandaríkjunum og hálshnykksmeiðsli valda Bandaríkjamönnum miklum búsifjum og eru dýrasti einstaki þátturinn í lækningum fórnarlömba umferðarslysa. Hálshnykksmeiðsli kosta Bandaríkjamenn árlega um 8,5 milljarða dollara að mati IIHS.
IIHS hrósar bílaframleiðendum fyrir að hafa brugðist fljótt við í því að innleiða ESC stöðugleikabúnað og loftpúðagardínur sem staðalbúnað í bíla. Nissan Murano er einn þeirra bíla sem hefur hvorttveggja sem staðalbúnað. Þetta próf og fyrri prófanir IIHS á jeppum hafa leitt í ljós að jeppar veita flestir fólkinu í bílnum veika vörn í hliðarárekstrum. Þótt þeir í krafti stærðar sinnar virki á fólk sem sterkir og öruggir sé staðreyndin hins vegar sú að fólk er oft miklu öruggara gagnvart hliðarárekstrum í venjulegum fólksbílum en hábyggðum jeppa. Hummer H3 sem einnig var prófaður hjá IIHS, olli sérstökum vonbrigðum. Hann fékk einungis einkunnina viðunandi í framaná-árekstri og reyndist að því leyti aumari en flestir nýir venjulegir fólksbílar. Litlu skárri að þessu leyti hefur Chevrolet TrailBlazer reynst.
Þeir bílar sem prófaðir voru að þessu sinni eru auk Nissan Murano; Mazda CX-7, Mazda CX-9, Mitsubishi Endeavor, Suzuki XL7, Hummer H3, Jeep Wrangler, Jeep Liberty/Dodge Nitro og Kia Sorento. Hægt er að sjá niðurstöður prófunarinnar á heimasíðu IIHS.