Nissan Navara pallbíll ársins hjá bresku tímariti
Breska bílatímaritið 4x4 Magazine hefur kosið pallbílinn Nissan Navara pallbíl ársins 2020. Tímaritið er útbreiddasta blað sinnar tegundar á Bretlandseyjum, en það sérhæfir sig í umsögnum og almennum umfjöllunum um fjórhjóladrifsbíla og pallbíla.
Hinn nýi Navara, sem er með fimm ára verksmiðjuábyrgð framleiðanda eða ábyrgð á allt að 160 þúsund km akstri, hvort heldur sem kemur á undan, hefur 1.100 kg burðargetu á palli auk þess sem 3,5 tonna dráttargeta bílsins hefur aldrei verið hnitmiðaðri og öruggari en nú vegna aðstoðarkerfisins „Intelligent Trailer Sway Assist technology“.
Navara kom á markað í árslok 2015 og var bílnum strax tekið afar vel á mörkuðunum, einkum og sér í lagi í löndum Asíu og á Bretlandseyjum, Þýskalandi og Svíðjóð svo helstu markaðslönd Navara í Evrópu sé nefnd. Nissan Navara var kjörinn pallbíll ársins í Evrópu 2016 og einnig í einstökum Evrópulöndum, þar á meðal hér á landi, þar sem honum hefur verið afar vel tekið af einstaklingum jafnt sem fyrirtækjum eða opinberum stofnunum.