Nissanbíll fyrir vísindamenn
Nissan Terranaut - jeppi fyrir jarðfræðinga.
Bílasýningin í Genf stendur nú fyrir dyrum og og meðal hugmyndabíla sem þar verða sýndir eru Nissanbíll sem sérstaklega er hugsaður til nota fyrir vísindamenn í rannsóknaleiðöngrum. Í bílnum er góð vinnuaðstaða með tölvum og fjarskiptabúnaði og útsýnisturn er upp úr toppnum.
Þessi vísindamannabíll nefnist Terranaut og er nafnið dregið af latnesku orðunum terra sem þýðir jörð og nauta sem þýðir sjómaður eða ferðalangur. Samkvæmt frétt Auto Motor & Sport er þeim hjá Nissan full alvara með þennan bíl sem hannaður er í hönnunarmiðstöð Nissan í London. Bíllinn er hannaður sem farartæki og um leið vinnustöð jarðfræðinga, jarðeðlisfræðinga, fornleifafræðinga o.fl. Terranaut er að sjálfsögðu með drifi á öllum fjórum hjólum og aftur í honum er innréttingin miðuð við að henta sem best vísindamanni.