Níu af tíu mótorhjólaslysum bílstjórum að kenna
Níu af hverjum tíu umferðarslysum þar sem bíll og mótorhjól rekast saman, eru sök bílstjóranna. Þetta er meginniðurstaða rannsóknar sem sænska tryggingafélagið If hefur látið gera.
Rannsóknin náði til 1.072 árekstra milli mótorhjóla og bíla sem urðu á árunum 2008-2010 í Svíþjóð. Í einungis 39 þessara slysa sem rannsökuð voru, áttu ökumenn mótorhjólanna sök á slysinu. Í 964 slysanna voru það hins vegar ökumenn bílanna sem voru slysavaldarnir.
Dan Falconer er sérfræðingur hjá If tryggingafélaginu. Hann segir við tímaritið Vi Bilägare að niðurstaðan sé hrollvekjandi og það sé alvarlegt íhugunarefni hversu oft hlutfallslega bílstjórarnir eru valdir að slysum sem mótorhjól og bílar eiga í hlut. Hann telur meginvandann vera of mikla óaðgætni bílstjóra. Þeir hreinlega sjái ekki mótorhjólamanninn sem svosem sé ekki nein ný saga. En að bílstjórar séu svona blindir á mótorhjólin í umferðinni eins og rannsóknin sýnir, sé skelfilegt.
Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur 21 ökumaður mótorhjóls látið lífið í umferðinni í Svíþjóð. Það er átta fleiri glötuð mannslíf en á sama tíma í fyrra. En hvað telur Falconer vera til ráða gegn þessum ósköpum? „Litríkari klæðnaður,“ segir Falconer. Hann bendir á að flestir mótorhjólamenn klæðist svörtum hlífðarfatnaði og skera sig því ekki vel út úr og eru ekki vel sýnilegir. Án efa myndi það fækka dauðaslysunum ef mótorhjólamenn öxluðu lítilsháttar viðbótarábyrgð á lífi sínu og limum með því að gera sig sýnilegri og klæðast hlífðarfatnaði í áberandi litum, eins og t.d. viðvörunarvestum utanyfir hlífðarfatnaðinn.