Nóbelsverðlaun fyrir litíumjónarafhlöður
Konunglega sænska vísindaakademían greindi frá því í Stokkhólmi í dag að þrír einstaklingar deildu með sér nóbelsverðlaununum í efnafræði. Um er að ræða Bandaríkjamanninn John Goodenough, Bretann Stanley Whittingham og Akira Yoshino frá Japan.
Verðlaunin hljóta þeir fyrir hönnun og þróun á litíumjónarafhlöðum. Í tilkynningu frá akademíunni kemur fram að þessar léttu rafhlöður, öflugu og endurhlaðanlegu knýja áfram í dag síma, fartölvur og rafbíla. Þær eru einnig þeim kostum gæddar að geta geymt sólar- og vindorku sem geri það kleift að skapa samfélag án jarðefnaeldsneytis.
Þess má geta að Goodenough er 97 ára gamall og er elsti maðurinn sem hlotið hefur Nóbelsverðlaun.