Norðmenn lækka bílagjöldin
Í fjárlagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarflokkanna Venstre og Kristelig Folkeparti er boðuð veruleg lækkun á skráningar- og umskráningargjöldum bíla. Tilgangurinn er sá að liðka fyrir sölu á nýjum og nýlegum umhverfismildum bílum. Skráningargjöldin lækka mest á nýjustu og sparneytnustu bílana.
Þegar frumvarpið kom fyrst fram áttu margir erfitt með að trúa því að þessar lækkanir gengju eftir. Þær væru einungis einskonar skiptimynt milli stjórnarflokkanna og hæpið að þær næðu í gegn í endanlegri mynd frumvarpsins. Þá voru bæði bílgreinin og umhverfissamtök ósátt við það að ekki stóð til að láta lækkanirnar ná til tengiltvinnbíla. Það hefur farið á annan veg því í lokagerð frumvarpsins, sem þingmeirihluti er fyrir, hafa tvinnbílarnir náð inn og verður gefinn aukinn afsláttur af hinu ofurháa skráningargjaldi á helstu gerðir þeirra við nýskráningu. Afslátturinn verður 26% en hefur verið 15%. Tengiltvinnbílarnir verða auk þess undanþegnir aðflutningsgjöldum sem þýðir það að þeir vinsælustu þeirra munu á næsta ári lækka í verði um 3-4 hundruð þúsund ísl. kr. Rafbílar verða áfram eins og undanfarin ár undanþegnir tollum, vörugjöldum, virðisaukaskatti, vegatollum og ferjugjöldum.
Talsmenn bílgreinarinnar í Noregi fagna því að lækka eigi stórlega opinber göld á tengiltvinnbílana og segja að með því muni fleiri en áður, sérstaklega í dreifðari byggðum landsins velja þá.