Norðurljós fá rafmagns-Benza

Bílasmiðjan AMP í Cincinnati í Ohio sem breytir bílum í rafbíla, afhenti sl. miðvikudag Gísla Gíslasyni forstjóra Northern Light Energy fyrsta rafbílinn af þúsund sem NLE hefur pantað hjá AMP. Fjölmiðlar í Cincinnati og heimasíða AMP greina frá þessu. Bíllinn er jeppi af gerðinni Mercedes-Benz ML 350 EV.

Í fréttatilkynningu AMP og á vefsíðunni Green Autoblog segir að

http://www.fib.is/myndir/Ampd-equinox.jpg
Chevrolet Equinox rafbíll frá AMP.

þessi þúsund bíla pöntun sé virði um 100 milljóna dollara. Bíllinn sem Gísli fékk afhentan í vikunni sé annar tveggja  ML jeppa sem AMP hefur breytt í rafbíla. Afhending hinna 999 bílanna í stórum stíl hefjist síðan í september nk. en þeir verða af ýmsum tegundum, m.a. rafmagnsútgáfa jeppans Chevrolet Equinox sem forsvarsmenn NLE áætli að selja á Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

Gísli Gíslason sagði við fjölmiðla í Cincinnati að eftir að hafa reynsluekið ML-Benzanum hefði bíllinn sýnt sig að vera hinn ágætasti bíll í akstri og að hann félli afar vel að áætlunum fyrirtækis síns á Íslandi. Þegar hefðu yfir 50 aðilar, þar á meðal íslenska umhverfisráðuneytið samþykkt skriflega að setja upp hjá sér hleðslubúnað fyrir rafbíla og að stefna að því að endurnýja bílaflota sína yfir í rafbíla. Menn væntu sér mikils af rafbílum og Benz rafbíllinn frá AMP uppfyllti þær allar og gott betur.

Gísli sagði ennfremur að Ísland væri mjög heppilegt land fyrir rafbíla vegna þess að langstærstur hluti tiltæks rafmagns í landinu væri framleitt með fallorku vatna og jarðgufu. Rafmagnið væri því ódýrt og vel samkeppnisfært við innflutt jarðefnaeldsneyti.