Norrænir dekkjamenn
Nýju ESB reglurnar um merkingar á nýjum vetrarhjólbörðum sem gildi tóku um síðustu áramót eru úr takti við aðstæður á norðlægum slóðum að margra mati. Hjólbarðagreinin á norðurslóðum krefst því nýrra reglna um merkingar á vetrarhjólbörðum. Framkvæmdastjóri sambands norskra dekkjainnflytjenda segir við BilNorge að Evrópumerkingarnar miðli neytendum ófullkomnum og jafnvel röngum upplýsingum.
Dekkjamaðurinn sem heitir Hroar Braathen segir við BilNorge að ESB-merkingarnar byggi á prófunum sem fari fram við suður-evrópskar snjóleysisaðstæður. Þannig geti t.d. óneglt vetrardekk sem fengið hefur nálægt falleinkunn í hemlunarprófun á votu malbiki sýnt miklu betri hemlunareiginleika í norskum vetraraðstæðum
Á fimmtudaginn kemur fer fram ráðstefna í Osló um þessi mál. Þar hittast fulltrúar hjólbarðainnflytjenda, ýmsir norrænir sérfræðingar um hjólbarða, fulltrúar norrænna vegagerða og aðilar sem láta sig umferðaröryggi varða. Á ráðstefnunni verða merkingar á vetarhjólbörðum ræddar sérstaklega og hvernig má betur merkja vetrardekk þannig að neytandinn fái þær upplýsingar um dekkið sem mestu máli skipta hann.
Í nýju ESB merkingunum eru einungis tilgreindar einkunnir fyrir núningsmótstöðu, veggrip í bleytu og hávaða. Merkingar þessar eiga að vera vel sýnilegar og aðgengilegar á sölustöðum dekkja. En í flestum almennum dekkjaprófunum er athuguð frammistaða dekkja í 10-12 aðriðum og frammistaða vetrardekkja í snjó og á ís er sérstaklega prófuð, mæld og metin.
Akstur á negldum vetrardekkjum að vetri er víða háður takmörkunum og sumsstaðar jafnvel ekki leyfður. Í Noregi og á Íslandi er lítið um slíkar takmarkanir. Í Noregi skiptist sala á vetrardekkjum nokkurnveginn til helminga milli negldra og ónegldra dekkja. Svipaða sögu er að segja hér. Þó er hlutfall negldra dekkja líklega nokkru hærra hér en í Noregi.
FÍB hefur lengi ráðlagt félagsmönnum sínum að láta það ráðast af ríkjandi akstursaðstæðum og þörfum hvers og eins, hvort valin eru negld eða ónegld vetrardekk. Vetrardekkin hafa stöðugt verið að batna undanfarin ár í snjó og ís. Þó er það ennþá svo að negldu dekkin eru öruggust á ísingu. Í snjó skipta naglarnir litlu máli og á auðum vegi eru þeir fremur til ógagns en gagns.
En hvort sem fólk velur negld eða ónegld vetrardekk, þá er grundvallaratriði að velja þau vetrardekk sem hafa gúmmíblönduna og mynstrið sem best hæfir vetraraðstæðum á norðlægum slóðum. Gott vetrardekk þarf að hafa tryggt veggrip á snævi og ísi þöktum vegum. Mjög æskilegt væri því að þá eiginleika mætti einnig lesa ú ESB merkingunni.