Norska lögreglan endurnýjar bíla
Norska lögreglan auglýsti fyrr á árinu eftir tilboðum í nýja bíla af ýmsum stærðum og gerðum, eftirlitsbíla til nota í þéttbýli og á vegum úti, torfærubíla og fólksflutningabíla. Nú hafa menn ákveðið sig og flestir eftirlitsbílarnir sem keyptir verða eru VW Passat og fólksflutningabílarnir eru Mercedes Vito og Sprinter. Allir verða nýju bílarnir fjórhjóladrifnir og sjálfskiptir sem er nýjung hjá norsku lögreglunni. Hingað til hafa nánast eingöngu verið keyptir handskiptir bílar.
Alls gerðu umboðsaðilar sjö bílaframleiðenda tilboð í nýja lögreglubíla samkvæmt þeim kröfum sem fram komu í útboðsgögnunum. Ein þessara krafna var einmitt sjálfskipting. Yfirmaður bílamála norsku lögreglunnar segir við dagblaðið Aftenposten að sjálfskipting auki öryggið og geri ökumönnum auðveldara að einbeita sér að akstrinum og meta umferðina í kring.
Hann segir að fjórhjóladrifið sé valið vegna þess að það geri bílana stöðugri og öruggari í akstri og þar að auki duglegri í vetrarfæri. Bílarnir sé nú í fyrsta sinn sérstaklega hugsaðir fyrir norskar aðstæður sem séu m.a. langar vegalengdir, misjafnir vegir og allra veðra von. Þessar aðstæður geri miklar kröfur til bíla yfirleitt og einkum og sér í lagi lögreglubíla.
Aftenposten segir að í útboðsgögnum lögreglunnar hafi verið taldar upp í kring um 150 sérkröfur til eftirlitsbílanna. Þeirra á meðal skal vera tvöfalt rafkerfi með tveimur rafgeymum og tveimur rafölum. Aukakerfið er til að knýja alls kyns tæki og tól eins og radara, fjarskiptatæki, tölvur o.fl sem lögreglubílum skulu fylgja. Þá eru gerðar kröfur um auka rafmagnsinnstungur m.a. á milli framsætanna og aftur í bílunum einnig. Þá skal vera einskonar opnanleg lúga í aftursæti til að opna ef hreinsa þarf farþegarýmið afturí. Aftursætin þurfa að vera heilsteypt og með sterku og algerlega þéttu áklæði sem þolir hreingerningu með vatnsslöngu. Þá skulu bílarnir þola amk. 320 kílóa viðbótarþyngd við uppgefið burðarþol.
Athyli vekur að ekki skuli neinar ofurkröfur hafa verið gerðar til vélarafls og viðbragðs aðrar en þær að bílarnir séu ekki lengur en 12 sekúndur að ná 100 km hraða úr kyrrstöðu og 6,6 sekúndur að ná 60 km hraða úr kyrrstöðu.