Northvolt lýst gjaldþrota

Nokkur þúsund manns misstu vinnuna í Skellefteå í Norður-Svíþjóð þegar rafhlöðuverksmiðjan Northvolt varð lýst gjaldþrota í gær. Northvolt átti að verða lykilfyrirtæki í sókn evrópskra bílaframleiðenda á rafbílamarkaðnum, risastórt fyrirtæki sem framleiddi rafhlöður fyrir bíla.

Northvolt hóf starfsemi fyrir sjö árum og þar hafa starfað allt að 5000 manns í Svíþjóð, Þýskalandi og Póllandi, langflestir í Skellefteå í Norður-Svíþjóð. Aðaleigendur eru Volkswagen, bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs, Baillie Gifford, sem er breskur fjárfestingasjóður, vörubílaframleiðandinn Scania, fjárfestingarsjóður í eigu IKEA og ATP-sjóðurinn sem er fjárfestingarsjóður danskra lífeyrissjóða.

Northvolt hefur ekki tekist að tryggja nauðsynlegt fjármagn til að bjarga fyrirtækinu. Stjórnin hefur því lagt fram gjaldþrotabeiðni, sem var samþykkt af héraðsdómi Stokkhólms í gærmorgun. Um 4500 starfsmenn verða fyrir áhrifum, segir Tom Johnstone, sem tímabundið hefur gent stjórnarformennsku fyrirtækisins, á blaðamannafundi. Meirihluti starfsmanna er staðsettur í Skellefteå, en einnig í Västerås og Stokkhólmi.

Starfsmenn fengu upplýsingar um gjaldþrotið á stórum fundi klukkan 9 á miðvikudagsmorgun. Þá höfðu fréttir fjölmiðla um gjaldþrotið verið birtar í um það bil hálft sólarhring.

,,Þetta er þung frétt og mjög dimmur dagur fyrir alla okkur sem höfum unnið hart á hverjum degi og vonast til að fyrirtækið kæmist í gegnum þennan erfiða tíma," segir Shaneika Jeffrey, varaformaður Unionen-klúbbsins hjá Northvolt Ett í Skellefteå, í skriflegri yfirlýsingu.

Northvolt hefur laðað að sér fjölda starfsmanna frá öðrum löndum, sem í sumum tilfellum hafa tekið fjölskyldur sínar með til Svíþjóðar og skapað sér alveg nýtt líf.