Notaðir bílhlutir seljast vel í Svíþjóð
Á undanförnum fimm árum hefur sala á notuðum bílhlutum í Svíþjóð fjórfaldast. Þetta er góð þróun sem ekki sér fyrir endann á, segir forstjóri varahlutakeðju sem nefnist Laga. Laga er stærsti söluaðili notaðra varahluta í Svíþjóð og er í eigu 75 fyrirtækja um alla Svíþjóð sem rífa bíla í varahluti.
Það er fréttavefur Motormagasinet í Svíþjóð sem greinir frá þessu. Forstjóri Laga segir þar að hjá Laga reikni menn með því að um það bil 15 prósent allra tjónaviðgerða á bílum í Svíþjóð fari fram með notuðum varahlutum. Það sé eitt hæsta hlutfall sem gerist í Evrópu en flest tryggingafélög í Svíþjóð vilji hækka hlutfall endurunninna varahluta enn frekar, enda sparist með því móti verulegir fjármunir auk þess sem endurvinnslan dragi úr óæskilegum áhrifum á umhverfið.
Laga er sem fyrr segir stærsti söluaðili notaðra varahluta í Svíþjóð. Salan fer fyrst og fremst fram um heimasíðu en á henni er leitarvél þar sem bæði einkaaðilar og verkstæði geta leitað að varahlutum í tiltekna bíla, pantað þá og gengið frá greiðslu. Varahlutirnir eru síðan sendir til viðtakanda og berast honum í flestum tilfellum daginn eftir að gengið var frá pöntun. Um það bil tvö þúsund pantanir eru sendar af stað á hverjum einasta virkum degi að sögn forstjórans.