Nú er það alvaran sem gildir!
,,Tími rökræðna og spjalls er liðinn. Eigi heiminum að takast að hefta losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sem eru að breyta loftslagi jarðar, verðum við að hraða umskiptunum yfir í lág-kolefnishagkerfið strax og byrja á hreinni samgöngum, segir Carlos Ghosn forstjóri Renault-Nissan í grein í Automotive News.
Hann segir að leiðtogar hins alþjóðlega bílaiðnaðar geri sér grein fyrir þessu og hafi skuldbundið fyrirtæki sín til að stöðva CO2 útblástur frá bílum. 13 bílaforstjórar hafi undirritað skuldbindingu um tiltekna áfanga að þessu markmiði. Skuldbindingin sé í samræmi við það samkomulag sem náðist á COP21 loftslagsráðstefnunni í París. Það sé nefnilega ekki nóg að einstök ríki leitist ein við að framfylgja COP21 samkomulaginu. Stuðningur atvinnulífsins sé lífsnauðsynlegur ef einhver árangur á að nást. Umskiptin yfir í lág-kolefnishagkerfið séu óhjákvæmileg og muni eiga sér stað á næstu tveimur til þremur áratugum, annaðhvort skipulega og í almennri sátt, eða þá óskipulega og í ósætti sem kosta mun kreppur og mannleg átök í heiminum og því meiri, þeim mun lengur sem það dregst að hefja glímuna við vandann.
Ghosn segir að nú sé um 95 prósent bílaflota heimsins knúinn eldsneyti sem unnið er úr jarðolíu. Um það bil 64 prósent af olíuframleiðslu heimsins fari til þess að knýja flutningatæki. Nú eru um það bil 800 milljón bílar í umferð í heiminum en það stefnir í að þeir verði rúmlega tvöfalt fleiri 2050, eða meir en tveir milljarðar. Útilokað verði að knýja þann bílafjölda með jarðefnaeldsneyti og komast jafnframt hjá verstu afleiðingum loftslagsbreytinga.
„Við hjá Renault-Nissan vitum að til eru bæði skynsamlegar og hagkvæmar leiðir til að gera okkur minna háð jarðefnaeldsneyti og draga úr framleiðslu þess. Rafknúin farartæki eru einu mengunarlausu ökutækin sem mögulegt er að knýja eingöngu með sjálfbærri orku,“ segir Ghosn. Í þessu samhengi vitnaði hann í nýja skýrslu vísindamanna sem metið hafa öll kolefnisspor bíla frá fyrsta framleiðslustigi og síðan allan líftíma bílsins og notkun, þar til honum er eytt sem ónýtum. Jafnframt var gerður samanburður milli bíla með hefðbundna brunahreyfla og hreinna rafbíla með rafgeymum. Hann leiddi í ljós að rafbílarnir eru svo miklu „hreinni“ að þessu leyti að þótt þeir nýti rafmagn sem framleitt er í kolaraforkuverum þá eru kolefnisfótspor þeirra samt léttari en nýjustu og sparneytnustu bensínbílar.
„Renault-Nissan samsteypan hefur selt yfir 284.000 rafbíla frá því Nissan hóf að selja Leaf rafbílinn fyrir fimm árum. Rafbílarnir frá okkur eru nú rúmur helmingur allra rafbíla í umferð í heiminum og fjárfesting samsteypunnar í þeim nemur nú rúmum fjórum milljörðum dollara,“ sagði Carlos Ghosn. Hann kvaðst vera stoltur af þessu en þar sem rafbílaflotinn væri einungis örlítið brot af bílaflota heimsins yrði að gera miklu betur. „Bæði bílaframleiðendur og stjórnvöld verða að stuðla að því að rafbílar verði aðal samgöngutækið. Góðu fréttirnar eru þær að rafgeymatækninni fleygir fram, hleðslustöðvum fyrir rafbílana fjölgar um allan heim og aðrir bílaframleiðendur hafa skorist í leikinn og komið fram með nýja tvíorkubíla, tengiltvinnbíla og vetnisrafbíla sem fjölgar valkostum og stækkar framboð umhverfismildra bíla. Eins og rafbílarnir frá Renault og Nissan eru tvinn- og vetnisrafbílarnir framleiddir handa almenningi og fjölga valkostum þeirra. Og því fleiri framleiðendur, þeim mun meiri samkeppni á markaði og samkeppnin örvar áhugann og eftirspurnina,“ sagði Ghosn.
Hann hvatti stjórnvöld hvarvetna til að örva eftirspurning eftir rafbílum með hverskonar hvötum eins og skattaafsláttum, skilagjöldum fyrir gamla mengandi bíla, gjaldfrjálsum bílastæðum og fleiri hleðslustöðvum og með því að skipuleggja búsetu- og atvinnusvæði út frá því markmiði að stytta ferðatíma almennings sem mest og þannig draga sem hraðast úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Þetta hefði verið í Noregi og í bandarísku borginni Atlanta í Georgíu með góðum árangri. Almenningur hefði tekið vel við sér og rafbílum fjölgaði ört.
Ghosn segir að allar grænar fjárfestingar fyrirtækja, ríkja og sveitarfélaga og einstaklinga séu mjög skynsamlegar og það muni sýna sig betur og betur. Auk þess að hægja á og stöðva hlýnun á jörðinni stuðli þær að hagrænum stöðugleika og merki þess séu þegar farin að sjást. „Þær eru því það sem ber að gera. Það mun taka áratugi að gera samgöngurnar óháðar jarðefnaeldsneytinu og því ber okkur öllum að byrja strax að taka til hendinni. Bílaiðnaðurinn er tilbúinn til þess í samvinnu við opinbera aðila að fjarlægja kolefnislosunina úr bílasamgöngugeiranum,“ segir Carlos Ghosn forstjóri Renault-Nissan í lok greinar sinnar í Automotive News.