„Nú segjum við stopp“

 http://www.fib.is/myndir/Stulliflagglitil.jpg
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. 

Síðastliðinn fimmtudag, þann 14. september gekkst samgönguráðuneytið og samstarfsaðilar þess fyrir borgarafundum undir yfirskriftinni „Nú segjum við stopp!” við umferðarslysaöldu sem nú gengur yfir landsmenn.

Borgarafundirnir, sem allir voru á sama tíma, voru haldnir í Hallgrímskirkju í Reykjavík, í Stapanum Reykjanesbæ, í Fjölbrautaskóla Suðarlands á Selfossi, í Menntaskólanum á Egilsstöðum, Akureyrarkirkju, í Menntaskólanum á Ísafirði og í Borgarneskirkju. Jafnframt hefur síðan á fimmtudag verið opin heimasíðan stopp.is. Þar getur almenningur undirritað heit um bætta eigin hegðun og meiri ábyrgð í umferðinni. Nú á mánudagsmorgni hafa á tuttugasta þúsund manns undirritað yfirlýsinguna.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og æðsti yfirmaður umferðaröryggismála í landinu var á fundinum í Reykjavík. Hann hóf mál sitt með því að lesa upp nöfn þeirra 19 Íslendinga sem þá höfðu látist í umferðarslysum á árinu. Eftir fundinn hefur enn eitt dauðaslysið átt sér stað í umferðinni.

Ráðherrann lýst þvínæst aðgerðaáætlun sem hann vill hrinda úr vör gegn umferðarslysum. Megin-innihald hennar er efld löggæsla, m.a. með uppsetningu hraðamyndavéla við vegi, hert viðurlög við umferðarbrotum, ekki síst hrað- og ofsaakstri, og að flýtt verði sérstökum framkvæmdum ti að gera fjölförnustu vegi landsins út frá höfuðborginni öruggari. Þar er einkum átt við vegarkaflana úr Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum og Suðurlandsveg yfir Hellisheiði. Loks er ætlunin að auka umferðarfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.
http://www.fib.is/myndir/Stulliflaggar.jpg
Frá fundinum í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Myndir: Geir Guðsteinsson.