Núllsýn FÍB – útrýmum umferðardauðanum
.Á opnum borgarafundi í Haukahúsinu í Hafnarfirði í dag, 11. janúar n.k. kl. 17.30 vill FÍB gefa almenningi tækifæri til að kynna sér það markmið félagsins að útrýma banaslysum úr umferðinni fyrir árið 2015. Takist þetta verður Ísland fyrsta landið í heiminum til að ná þessu háleita markmiði sem allir hljóta að vilja stefna að. Á síðustu tíu árum hefur þeim sem látast í umferðinni fækkað ár frá ári eða frá þrátíu manns niður í 15 svo tekið sé meðaltal þriggja ára. Á sama tímabili hafa u.þ.b. 190 manns slasast alvarlega. En þótt tölur sýni jákvæða þróun er sérhvert slys engu að síður einu of mikið.
Ein mikilvægasta slysavörnin á vegum landsins er fólgin í því að aðskilja akstursstefnur og vænta má þess að um það verði nokkuð fjallað á fundinum því að tilefni hans er skelfilegt slys sem varð á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnes um aðventuna þar sem þrír létu lífið í hörðum árekstri. Áreksturinn varð þegar bíll fór yfir geil milli akbbrauta og yfir á öfugan vegarhelming þar sem hann rakst á annan bíl
Það er mjög mikilvægt að ganga þannig frá vegum að komast megi hjá stórslysum af því tagi sem varð á Hafnarfjarðarveginum um aðventuna. Oft vill það því miður gleymast hversu mikinn kostnað og hörmungar umferðarslysin kalla yfir gífurlegan fjölda fólks. Á fimm ára tímabili hafa u.þ.b. 7000 manns slasast eða látist í umferðarslysum. Þegar litið er á banaslys á landinu í heild frá árinu 2002, urðu yfir 60% þeirra í umferðarslysum. Næst þar á eftir koma heimilis- og frístundaslys, en þau eru „einungis“ tæplega 18%. En þrátt fyrir þann árangur sem vissulega hefur náðst í því að fækka banaslysum er ljóst að fórnir í umferðinni eru allt of dýrar og markmið um að árlega banaslysalausa umferð er nauðsynlegt og löngu tímabært.
Á vegum Félags íslenskra bifreiðaeiganda er í dag unnið öflugt forvarnastarf m.a. með EuroRAP sem er gæðaúttekt á öryggi vega. Vegir og umhverfi þeirra er skoðað og staðlað mat lagt á öryggi vegarins og líkur á óhöppum. Vegir fá síðan stjörnur fyrir öryggi, líkt og bílum er gefið í árekstraprófunum EuroNCAP. FÍB vill kalla alla landsmenn til samstarf um tryggara öryggi í umferðinni. Öruggari umferð er mál okkar allra, ekki bara þeirra sem aka bílunum hverju sinni heldur líka yfirvalda, vegahönnuða og veghaldara. Því skulum við fjölmenna á fundinn í kvöld og leggja í sameiningu á ráðin um öruggari umferð.
Frummælendur á fundinum í Haukahúsinu, sem hefst kl. 17.30, verða Steinþór Jónsson formaður FÍB, Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og verkefnisstjóri EuroRAP á Íslandi og Kristinn Hrafnsson fréttamaður. Þegar framsögumenn hafa lokið máli sínu verða pallborðsumræður og fyrirspurnum svarað.
Meðal þeirra sem hafa verið boðaðir á fundinn eru samgönguráðherra, þingmenn, sveitarstjórnarfólk, fréttamenn og fulltrúar stéttarfélaga, stofnana og samtaka sem láta sig umferðaröryggismál varða.