Ný bensínstöð í Reykjanesbæ
11.05.2005
Árni Sigfússon th. og Geir Sæmundsson.
Á hádegi í dag klippti Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ og formaður FÍB á borða og opnaði þar með formlega nýja bensínstöð í bænum. Stöðin er fjórða bensínstöð Atlantsolíu, félagsins sem innleiddi raunverulega samkeppni á eldsneytismarkaði á Íslandi. Nýja stöðin er í Ytri-Njarðvík skammt austan við félagsheimilið Stapa.
Geir Sæmundsson framkvæmdastjóri Atlantsolíu sagði við þetta tækifæri að framkvæmdir við stöðina hefðu gengið hratt og vel en framkvæmdir við hana hófust 12. mars sl. Teiknistofan Tröð hannaði stöðina, verkfræðistofan Hönnun annaðist eftirlit með uppsetningu hennar og það var verktakafyrirtækið Verktakar Magna sem önnuðust verklegar framkvæmdir. Stöðin verður ómönnuð sjálfsölustöð í framtíðinni, en fyrst um sinn verður starfsmaður Atlantsolíu á staðnum og leiðbeinir um notkun sjálfsalanna. Eldsneytisverð á stöðinni verður hið sama og á stöðvum Atlantsolíu á höfuðborgarsvæðinu.
Geir Sæmundsson og Árni Sigfússon hjálpast að við að klippa á borða og opna formlega nýja bílaeldsneytisstöð Atlantsolíu í Reykjanesbæ. Á myndinni til hægri setur Árni bensín á bíl fyrsta viðskiptavinar Atlantsolíu í Reykjanesbæ.