Ný brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi
Framkvæmdir eru hafnar við gerð nýrrar brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Framkvæmdin er tímabær enda er þetta eina einbreiða brúin á Hringvegi 1 frá Reykjavík og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Þetta verður þriðja brúin sem byggð er yfir þessa alræmdu á en sú fyrsta var byggð 1921 og núverandi brú árið 1967.
Umferðin yfir þessa 159 metra löngu einbreiðu brú hefur aukist mikið undanfarin ár, en árið 2019 var hún orðin rúmlega 2350 ökutæki á sólarhring og því orðið mjög aðkallandi að byggja nýja brú.
Verkið Hringvegur (1-b5) um Jökulsá á Sólheimasandi, var boðið út í september 2020 og tilboð opnuð í lok október. Lægstbjóðendur voru ÞG Verktakar og var gengið til samninga við þá þann 11. desember.
Verkið felst í byggingu brúar á Jökulsá á Sólheimasandi ásamt endurgerð vegakafla Hringvegar beggja vegna og gerð bráðabirgðavegar. Hæðarlega vegkaflanna er breytt frá því sem nú er, meðal annars til að vegurinn rofni áður en flæðir yfir brúnna. Brúin verður rúmlega 163 metra löng tvíbreið steinsteypt, eftirspennt bitabrú.
Helstu verkþættir
- Gerð bráðabirgðavegar (um 940 m) er tengist bráðabirgðabrú sem brúarflokkur Vegagerðarinnar byggir.
- Rífa að stórum hluta núverandi brú á Hringvegi. Millistöplar núverandi brúar verða rifnir niður að sökklum, en sökklar og rofvörn millistöpla verða endurnýttir. Steyptar verða nýjar endaundirstöður, en núverandi rofvarnir endaundirstaða endurnýttar.
- Smíði rúmlega 163 metra langrar tvíbreiðrar steinsteyptrar, eftirspenntrar bitabrúar í fimm höfum (28,8 m + 3 x 35,0 m + 28,8m). Endaundirstöður verða útfærðar með bogadregnum endaveggjum. Sigplötum verður komið fyrir við enda yfirbyggingar. Brúarþversniðið verður með einhliða þverhalla (3,5%) til suðurs
- Akstursbreidd brúar er 8 m og heildarbreidd 10 m. Slitlag verður ekki sett á brúnna og hún án þensluraufa.
- Gerð nýs vegar beggja vegna brúarinnar (um 940 m).
- Rífa bráðabirgðabrú og bráðabirgðaveg þegar hægt verður að hleypa umferð aftur á Hringveginn.
Hringvegur og bráðabirgðavegur verða með 3,5 m breiðum akreinum og 1,0m breiðum öxlum. Lögð verður 8,8 m breið klæðing á Hringveg, þannig að hvoru megin vegar verður 0,1 m breið malaröxl, en 7,0 m breiða klæðingu á bráðabirgðaveg, þannig að hvorumegin vegar verður 1,0 m breið malaröxl.
ÞG verktakar hófust handa strax að lokinni undirskrift samningins. Þá hefur brúarflokkur Vegagerðarinnar lokið við byggingu bráðabirgðarbrúarinnar norðan við núverandi brúarstæði sem verður notuð meðan á verkinu stendur. Mikilvægt er að halda veginum opnum enda er brúin mikilvægur hlekkur í samgöngum á Suðurlandi og á Hringveginum.
Bráðabirgðavegur skal vera tilbúinn eigi síðar en 22. maí. Klæðingar verða lagðar á tímabilinu 3. til 20. september 2021. Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 6. desember 2021.