Ný Ford Fiesta

http://www.fib.is/myndir/Ford_Fiesta_5dr.jpg
Ford Fiesta.

Ný kynslóð smábílsins Ford Fiesta er ein þeirra nýjunga sem frumsýndar eru á Genfarbílasýningunni að þessu sinni. Bíllinn er sýndur í bæði þriggja og fimm dyra útgáfu. Nýja Fiestan er það sem kallast heimsbíll sem þýðir að hann er einn og sami bíllin hvort heldur sem hann er byggður í Evrópu, Asíu eða Ameríku. Framleiðslan hefst með haustinu í verksmiðju Ford í Köln í Þýskalandi og á næsta ári í Valencia á Spáni. Frá 2010 verður Fiesta einnig framleidd í Ameríku og Asíu.

Fiesta hefur verið gerðarheiti hjá Ford frá árinu 1976 og alls hafa rúmlega tólf milljón Fiesta bílar verið byggðir hingað til. Upphaf Ford Fiesta er að rekja til olíukreppunnar 1973 þegar eftirspurn eftir sparneytnum bílum stórjókst í einu vetfangi. Því má segja að það sé vel við hæfi að ný og gerbreytt Fiesta komi fram nú þegar eldsneytisverð hefur náð hæstu sögulegu hæðum.

Þegar unnið var að hönnun fyrstu Fiesta kynslóðarinnar var vinnuheiti verkefnisins Bobcat. Síðan var settur saman listi með einum 50 nöfnum sem til greina komu á bílinn og á endanum varð semsé Fiesta fyrir valinu.

Nýja Fiestan verður í boði með sex gerðum dísil- og bensínvéla frá 60-115 hestafla. Sú öflugasta er ný 1,6 l og 115 hestafla bensínvél sem kallast Duratec TI-VCT. Stærsta dísilvélin nefnist Duratorq. Hún er 1,6 l að rúmtaki og 90 hestafla. Sjálfskipting verður fáanleg með aflmeiri vélunum. http://www.fib.is/myndir/Ford_Fiesta_interior.jpg

Bíllinn verður búinn öllum öryggisbúnaði sem nauðsynlegur telst nú til dags, þar á meðal er ESC stöðugleikakerfi. Í bílnum verða sérstakir loftpúðar til að verja hné og lærleggi ökumanns í árekstri.

Í Fiesta verður hraðanæmt rafknúið aflstýri, þannig að í akstri sparast nokkrir sentilítrar af eldsneyti sem annars færu í að snúa vökvastýrisdælu sem ekki er þörf fyrir í vegaakstri.
Þótt nýja Fiestan sé bæði betur búin að flestu leyti en eldri gerðin og með mun viðameiri öryggisbúnaði, er hún samt léttari. Það er fyrst og fremst vegna þess að hún er byggð úr nýrri gerð stáls sem er sterkara en jafnframt léttara en eldra stál er.

Hönnuðir nýju Fiestunnar segjast hafa haft farsímana í huga þegar þeir hönnuðu innréttinguna í bílinn.