Ný gerð af Mercedes E
Nýi E-Benzinn. Kemur á markað 10. júní.
Ný og nokkuð breytt gerð Mercedes Benz E kemur á Evrópumarkað þann 10. júní nk. Bíllinn er lítilsháttar breyttur í útliti án þess þó að um róttækar breytingar sé að ræða, en við innviði has er það einna markverðast að búið er að gefa upp á bátinn tölvustýrðu bremsurnar og snúa til baka til hefðbundinna vökvaþrýstingshemla.
Nýi E-Benzinn verður frumsýndur á bílasýningunni í New York sem opnuð verður fyrir blaðamenn 12. apríl nk og verður opin almenningi 14.-23. apríl.
Allmargar njósnamyndir hafa verið að birtast undanfarið af E-Benzanum og á þeim flestum hefur framendinn verið hulinn. Ekki er því alveg víst að hann líti nákvæmlega eins út og myndin hér sýnir þar sem hún er tölvugerðar. En engu að síður er framendinn breyttur frá eldri gerð, grillið er öðruvísi og ljósin og vindkljúfurinn að framan sömuleiðis. Stefnuljósin að aftan og framan eru nú með ljósdíóðum í stað pera og fáanlegt verður sem aukabúnaður aðalljósakerfi sem kallast ILS sem stendur fyrir Intelligent Light System. Það gefur frá sér ljós frá aðalluktunum sem lýsir á fimm mismunandi vegu fram á veginn og til hliðanna eftir því hve hratt er ekið og hvort verið sé að taka beygju o.s.frv.
Það sem tæknisinnuðum bílaáhugamönnum þykir þó markverðast er að E-Benzinn er ekki lengur með tölvuknúnum hemlum heldur hefðbundnum vökvaþrýstihemlum. Tölvubremsurnar komu í E-Benzann 2001 og hafa satt að segja ekki reynst vel og skaðað orðspor þessa mikla lúxusbíls.