Ný hámarkshraðamörk fyrirhuguð í Svíþjóð
03.10.2005
Í nýrri ítarlegri skýrslu sem sænska vegamálastofnunin hefur látið gera er mælt með mjög miklum breytingum á hámarkshraðamörkum í sænska vegakerfinu. Taka þurfi tillit til miklu fleiri þátta heldur en áður hefur verið gert þegar hámarkshraði á vegi er ákveðinn – þátta eins og umhverfis og öryggis og að hámarkshraðamörk þurfi að vera fjölbreyttari en nú og rðaðast af aðstæðum á hverjum stað. Undir öryggisþáttinn fellur m.a. markmiðið um að útrýma dauðaslysum í umferðinni (hin svokallaða sænska Nollvision eða núllsýnin). Aðrir þættir sem taka þurfi tillit til þegar hámarkshraði er ákveðinn að mati skýrsluhöfunda eru t.d. umferðarflæði, afköst vega og þjóðhagsleg hagkvæmni. Þá vegur einnig þungt hversu sáttir og skilningsríkir ökumenn eru við hámarkshraðann. Sem dæmi um slíkt er nefnt hversu erfiðlega hefur gengið að fá ökumenn til að samþykkja lækkaðan hámarkshraða úr 110 í 90 og úr 90 í 70 eins og sumsstaðar hefur verið gert, t.d. að vetrarlagi.
Út úr skýrslunni má lesa að núverandi hámarkshraðamörkum verði breytt. Þau verði fleiri og verði í því farið eftir mati á öryggi vegarkaflanna. Í stað ójafnra hámarkshraðatalna sem nú eru - 50, 70, 90 og 110 – muni hámarkshraðamörk jafnan standa á jöfnum tölum. Lagt er til að lmennur hámarkshraði í þéttbýli sem til þessa hefur verið 50 verður lækkaður í 40. Hámarkshraði á hraðbrautum sem hingað til hefur verið 110 verður aftur á móti hækkaður í 120. Þessa dagana hefur einmitt hraðbrautahámarkshraðinn verið hækkaður í tilraunaskyni í Hallandshéraði í Suður Svíþjóð upp í 120. Loks er lagt til að hámarkshraði á venjulegum þjóðvegum með eina akbraut í hvora átt verði framvegis 80 en 90 á 2+1 vegum með víraleiðara sem aðskilur umferð til gagnstæðra átta. Samþykki sænska þingið tillögur skýrsluhöfunda munu breytingarnar taka gildi 1. janúar 2007.