Ný heimasíða sem auðveldar varahlutaleit
Kristján Trausti Sveinbjörnsson hefur sett um heimasíðuna www.partasalar.is þar sem fólk getur nálgast nafn, heimilisfang og símanúmer hjá 29 bílapartasölum um allt land og heimasíður og tölvupóstföng hjá þeim sem slíkar tengingar hafa. Hægt er að senda út frá heimasíðunni fyrirspurnir um varahluti sem vantar og þeir sem vilja losa sig við gamla þreytta bílinn geta sent út skilaboð um að hann sé falur. Öll notkun heimasíðunnar er ókeypis.
Kristján segir í samtali við fréttavef FÍB að um þrír mánuðir séu síðan hann setti upp síðuna. Kveikjan að henni hafi verið sú að hann hafi sjálfan vantað varahlut og rak sig þá á það að engin nákvæmlega svona einföld heimasíða eða leitarvél fyrirfannst. Því hafi hann sett upp síðuna til þess að auðvelda öðrum að útvega sér ódýra varahluti í bíla sína. Markmið hans væri einfaldlega það að gera venjulegu fólki það þægilegra, einfaldara og ódýrara að viðhalda bílum sínum með því að endurnýta hluti sem annars yrðu engum til gagns.
Ef einhvern vantar t.d. framljós þá kostar það nýtt oftast mjög háar fjárhæðir meðan næstum jafngott notað ljós sem finnst á partasölu kostar einungis brotabrot þess. Greiða þarf fyrir nýja ljósið með dýrmætum erlendum gjaldeyri en ef gott notað ljós finnst, þá sparast hann og góður notaður hlutur er endurnýttur sem annars myndi á endanum verða urðaður einhversstaðar. Framtak Kristjáns er þannig samfélags- og umhverfislegs eðlis sem á endanum er bæði notendum og samfélaginu öllu til hagsbóta.
Notkun heimasíðunnar partasalar.is er sem fyrr segir ókeypis og engir kostunaraðilar eða auglýsendur koma að rekstri hennar. Aðspurður segir Kristján að hún kosti hann sjálfan sáralítið annað en leigu fyrir vistun hennar og þá vinnu sem hann sjálfur leggur í gerð hennar og viðhald, en ef hún gagnist fólki þá sé það sér ómaksins virði.