Ný hönnunarsamkeppni um brú yfir Fossvog
Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hafa ákveðið að hafna öllum umsóknum um þátttöku í hönnunarsamkeppni um brú yfir Fossvog. Ný hönnunarsamkeppni verður auglýst í október 2020.
Forsaga þessa máls er sú að föstudaginn 20. desember 2019 voru opnaðar umsóknir um þátttöku í hönnunarsamkeppni um brú yfir Fossvog og sóttu 17 aðilar um þátttöku í samkeppninni. Niðurstaða forvalsins var tilkynnt umsækjendum þann 24. janúar 2020 og voru sex hönnunarteymi valin til þátttöku.
Tvær kærur bárust kærunefnd útboðsmála vegna forvalsins og þann 6. júlí 2020 felldi
kærunefndin úr gildi ákvörðun um val á þátttakendum í forvalinu á þeim forsendum að skilmálar útboðsgagnanna samrýmdust hvorki 4. mgr og 5. mgr. 44. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.
Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram að hún meti það svo að forsendur er skyldu ráða vali þátttakenda og tilgreindar undir liðunum „Verktilhögun“, ,,Sýn á verkefnið“ og ,,Fyrri reynsla“ í útboðsgögnum, hafi verið verulega almennar og matskenndar.
Með bréfi þann 5. ágúst 2020 dró verkkaupi ákvörðun um val á þátttakendum til baka í samræmi við úrskurð kærunefndar. Engar athugasemdir voru gerðar við þá ákvörðun.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu kærunefndar útboðsmála hafa Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær ákveðið að hafna öllum umsóknum um þátttöku í hönnunarsamkeppnina og fella niður innkaupaferlið.
Stefnt er að því að auglýsa nýja hönnunarsamkeppni í október 2020. Ráðgjafafyrirtækið Alta mun hafa umsjón með samkeppninni sem verður opin.