Ný hraðhleðslustöð opnuð við Hof á Akureyri
ON vinnur nú að því að uppfæra hraðhleðslunet sitt með nýjustu kynslóð hraðhleðslustöðva á völdum stöðum á landinu. Nýverið var opnuð hraðhleðslustöð með 150 kW hámarkshleðslu við Hof á Akureyri.
Nýja hraðhleðslustöðin er sú fimmta sem ON hefur opnað á árinu en fyrirtækið stefnir á að setja upp tíu hraðhleðslustöðvar á þessu og næsta ári. Nýja stöðin getur afgreitt allt að 150 kW hleðslu og er með tvö CSS tengi og eitt Chademo.
Stöðin getur þjónað tveimur bílum í einu sem deila þá aflinu að hámarki 75kW á hvort tengi, en það fer eftir hleðslugetu bílsins. Eldri stöðin við Hof gat hlaðið 50 kW að hámarki og komst þá aðeins einn bíll að í einu.
ON mun halda áfram að byggja upp net hraðhleðslustöðva en aukin áhersla er lögð á að bjóða upp á aflmeiri hraðhleðslur, þétta net og auka afköst þar sem þörfin er mest.