Ný Lada

Ný Lada sem ber gerðarheitið Granta hefur verið kynnt í Rússlandi og þótt fyrr hefði verið segja sjálfsagt einhverjir, því að Lada hefur að mestu verið að framleiða sömu bílana áratugum saman. Bílnum er ætlað að vera arftaki Lada Samara sem hér var nokkuð algengur bíll á ofanverðri síðustu öld.

http://www.fib.is/myndir/Lada-Granta-2011-2.jpg

Lada Granta er annars ávöxtur samvinnu  Avto Vaz í Rússlandi og Renault í Frakklandi. Bíllinn var kynntur seint á nýliðnu ári í Rússlandi af sjálfum Vladimir Putin og á fréttamannafundi í Togliatti í Rússlandi gekk honum illa að koma bílnum í gang. Ekkert er sagt um hvort eða hvenær Lada Granta verður fáanlegur í ríkjum V. Evrópu. Í Rússlandi kostar Granta frá 915 þúsundum ísl. króna.  Granta fæst þar í tveimur meginútfærslum og er sú fínni um það bil 50 þús. ísl kr. dýrari. Verðmunurinn er einkum fólginn í samlitum stuðurum, álfelgum og útvarpi sem ekki er í ódýrari gerðinni.

Vélin er einfaldlega gamla 1,6 l Löduvélin og við hana er fimm gíra handskiptur gírkassi. Undir lok ársins verður fáanleg sparneytnari 1,4 l fjölventlavél frá Renault og sjálfskipting.