Ný mislæg gatnamót tekin í notkun
Ný mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar voru tekin í notkun fyrir helgina. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra klippti á borða til að hleypa umferð um þetta nýja mannvirki. Gatnamótin leysa af hólmi hættuleg gatnamót á þessum stað og auka þannig umferðaröryggið.
Klippt var á borða við hringtorg á veginum undir brúnni á mislægu gatnamótunum. Verkefnið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðar. Sjá frétt um verkið hér . Það voru þeir Andrés Konráðsson Loftorku og Dofri Eysteinsson Suðurverki sem héldu borðanum á lofti en þeir voru aðalverktakar í verkinu.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ítrekaði mikilvægi þessa verks vegna umferðaröryggisins og samgönguráðherra ítrekaði einnig mikilvægi framkvæmdarinnar.
Nýju mislægu gatnamótin nýtast þó ekki að fullu fyrr en lokið verður við að tvöfalda Reykjanesbrautina frá Hafnarfirði að þessum gatnamótum. Og þá bíður einnig tvöföldun framhjá álverinu í Straumsvík að tvöfaldri Reykjanesbrautinni þar fyrir sunnan.
Á myndinni má sjá mislægu gatnamótin úr lofti sem Hersir Gíslason tók.