Ný Netverslun með hjólbarða
Dekkjatorg.is er ný íslensk vefverslun með hjólbarða og hjólbarðaþjónustu sem tók til starfa 1. maí sl. Á vefnum er að finna yfir eitt þúsund vörunúmer frá fjölda innflytjenda á hjólbörðum fyrir fólksbíla, jeppa, jepplinga og sendibíla. Á Dekkjatorgi er að finna fleiri vörumerki og breiðara vöruval en þekkist á öðrum íslenskum vefsíðum með hjólbarða að því er segir í frétt frá fyrirtækinu.
Nýjung á vefnum www.dekkjatorg.is er að kaupendur geta einnig valið að kaupa dekkjaskipti frá hinum ýmsu þjónustuaðilum sem skráðir eru á vefinn. Hægt er að fá dekkin send heim að dyrum eða fá þau sett undir bílinn hjá því hjólbarðaverkstæði sem hentar best.
Dekkjatorg.is er á öðrum þræði upplýsingavefur. Þar er m.a. hægt að fá upplýsingar um hjólbarða og aðila í hjólbarðaþjónustu. „Í dekkjatörn að hausti eða vori vantar alla dekk á sama tíma og það getur verið ærin vinna að reyna að hafa samband við eða heimsækja söluaðila hjólbarða til að gera sér góða mynd af markaðnum. Vefsvæðum hjólbarðasala hefur verið ábótavant og fram til þessa hefur enginn vefur veitt jafn víðtækar upplýsingar á hlutlausan hátt, þannig að það er engum einum framleiðanda eða einhverju sérstöku hjólbarðaverkstæði gert hærra undir höfði en öðrum. Hinn almenni bíleigendi getur fundið besta kostinn í dekkjakaupum á vefnum, tekið ákvörðun í rólegheitum og gengið frá viðskiptunum á netinu – hann mætir svo einfaldlega á hjólbarðaverkstæðið þegar hann fær skilaboð um að dekkin bíði hans tilbúin þar,“ segir Ómar Guðmundsson (mynd) hjá Tiris ehf. sem er eigandi vefsins.
Ómar segir ennfremur að þar sem hjólbarðar eru stór kostnaðarliður í rekstri bifreiða, eigi að vera mögulegt að spara stórar upphæðir með því að byrja á því að leita sér upplýsinga um hvað sé í boði og taka síðan upplýsta ákvörðun um hagstæðustu kaupin.“
Þegar leitað er að hjólbörðum undir bílinn nægir að slá inn númer viðkomandi bíls inn í leitarvél á heimasíðunni. Þá koma fram upplýsingar um réttu dekkjastærðina undir bílinn, eins og þær eru skráðar í Bifreiðaskrá og upplýsingar um hvaða hjólbarðar eru til í þeirri stærð. Einnig er hægt að leita eftir nákvæmri dekkjastærð og óska eftir vetrar-, sumar- eða heilsársdekkjum . . . eða öllum valkostum.
Mikið er lagt uppúr góðum myndum og upplýsingum um hjólbarða á Dekkjatorg. Nærmyndir af munstri og myndir af dekkjum undir bílum eru meðal myndefnis til að auðvelda ákvörðun bíleigandans. Evrópskar neytendamerkingar eru skráðar við öll dekk þar sem þær upplýsingar fást frá framleiðanda. Þjónustuaðilar fá sína eigin upplýsingasíðu þar sem fram kemur lýsing á starfseminni, þjónustuþættir, afslættir í boði, opnunartíma og fleira. Á Dekkjatorgi er jafnframt mikið af almennum upplýsingum um hjólbarða, tækniupplýsingar, reglur um notkun nagladekkja, samantekt á verðkönnunum og fleira.