Ný Nissan Micra
Nissan Micra var var um langt árabil mjög vinsæll smábíll, ekkert síður á Íslandi en annarsstaðar. En þegar ný og gerbreytt kynslóð kom fram árið 2003 varð hún ekki til þess að auka vinsældir þessarar áður vinsælu gerðar. Salan á Micra hrapaði, nýja gerðin féll fólki ekki í geð. Nú er Nissan að leggja lokahönd á prófanir á nýrri kynslóð Micra. Þær njósnamyndir sem náðst hafa af bílnum sýna miklu hófstilltari bíl í útliti eins og þessi tölvugerða mynd AutoExpress sýnir. Kannski að Micra eigi eftir að ná fyrri vinsældum.
Nýja Micran á að koma á markað á síðari hluta næsta árs. Hún er byggð á svokallaðri V-grunnplötu Renault-Nissan. Þessi grunnplata er þannig úr garði gerð að hún getur orðið grunnur að talsvert mörgum gerðum bíla auk Míkrunnar. Af öðrum Renault og Nissan bílum sem byggðir verða á þessari grunnplötu eða þessum botni, verða lítill fjölnotabíll og stallbakur af minni millistærð. Það sem er áhugavert við þesssa botnplötu er það að hún er sérstaklega hugsuð til að þola vonda vegi. Þannig verður hægt að byggja bíla ofan á hana sem líklegir eru til að þola vegina í þróunarlöndum og ættu því að endast vel á evrópskum vegum. Hún á að standa undir bílum sem eru allt að 1,6 tonn að þyngd og vélar með vinnslu allt að 200 Newtonmetrar. Það þýðir að nýja Micran gæti auðveldlega staðið undir 1,5-1,6 l talsvert öflugri túrbínudísilvél. Þá segja bílafjölmiðlar að bensínvélarnar verði 900- 1200 rúmsm stórar og fáanlegar með túrbínun. Þá segir einnig að í þróun sé ný og sterkari gerð af hinum stiglausu CVT-sjálfskiptingum, en allt á þetta sjálfsagt eftir að koma í ljós þegar bíllinn kemur á markað á síðari hluta næsta árs.
Hönnuðir nýju Míkrunnar hafa lagt sig eftir því að gera bílinn léttan og einfaldan. Bílar sem byggðir verða á V-grunnplötunni eru sagði verða samsettir úr 18 prósent færri hlutum en sambærilegir bílar. Mælaborðið í Míkrunni verður t.d. samsett úr 28 hlutum í stað 56 í núverandi gerð. Og framsætin verða samsett úr 50 hlutum í stað 85 áður.