Ný og aukin þjónusta við rafbílaeigendur í FÍB
Ef rafbíll FÍB félaga verður orkulaus þá flytur FÍB Aðstoð bíllinn á næstu hleðslustöð eða að heimili félagsmanns, eftir því hvort er nær. Endurgjaldslaus flutningur miðast við dagvinnu innan þjónustusvæðis FÍB Aðstoðar. Ef rafbíll er fluttur utan dagvinnu þá greiðir félagsmaður yfirvinnuálag. FÍB félagar geta notið rafbílaaðstoðarinnar allt að tvisvar sinnum á félagsári, í samræmi við skilmála og skilyrði FÍB Aðstoðar. Hleðsluflutningur eykur öryggi rafbílaeigenda og dregur úr drægnikvíða.
Drægnikvíði (e. range anxiety) er hugtak sem varð til á tíunda áratug 20. aldarinnar og á við um áhyggjur ökumanna af að ná ekki áfangastað þegar ferðast er í rafbíl vegna takmarkana á drægni rafbíla. Drægni rafbíla er háð mörgum þáttum m.a. aksturslagi, staðháttum, hæðum og hólum, hitastigi, notkun miðstöðvar, ljósa og annarra raftækja bílsins.
Aldur og akstursnotkun ökutækis hefur áhrif á endingu hleðslunnar og þar með drægni. Vegna þessa getur drægni verið mismunandi eftir ytri aðstæðum,notkun og aldri rafhlöðu. Flestir rafbílar hafa minni drægni en hefðbundnir sprengihreyfilsbílar. Drægnikvíði hefur neikvæð áhrif á væntanlega kaupendur rafbíla. Rannsóknir sýna að almennt er drægnikvíði ástæðulaus og fólk virðist ofmeta akstursþörfina. Norskar rannsóknir sýna að reynslu af rafbílanotkun dregur oftast verulega úr drægnikvíða.
FÍB félagar hafa aðgang að FÍB Aðstoð vegþjónustu 365 daga ársins, allan sólarhringinn í síma 5 112 112. Það alltaf einhver við símann félagsmönnum til ráðgjafar. Innifalið í FÍB Aðstoð er m.a. eftirfarandi þjónusta: Startaðstoð ef bíllinn er straumlaus, dekkjaskipti eða loft í dekk, komið með eldsneyti ef bíllinn er eldsneytislaus og flutningur á biluðum bíl innan þjónustusvæðis.