Ný og breytt Renault Laguna
Renault Laguna 2008.
Renault sýndi fjölda nýjunga á bílasýningunni í Frankfurt sem er nýlokið. Meðal þeirra voru ný kynslóð millistærðarbílsins Renault Laguna, glænýja skutbílsútgáfu hins nýja Renault Twingo og nýja og veglegri gerð sendibílsins Kangoo sem líka fæst sem rúmgóður fjölskyldubíll.
Renault bílar hafa oft lent neðarlega í bilanatíðnikönnunum eins og hjá systurfélagi FÍB í Þýskalandi; ADAC en hafa greinilega verið að batna, ekki síst Laguna sem í síðustu könnun ADAC færðist upp úr botnsætunum upp í efra meðallag. Það er að þakka meira og betra gæðaeftirlits hjá Renault sem boðar enn frekari framfarir í þeim efnum á næstunni.
Hin nýja Renault Laguna var frumsýnd í framleiðsluútgáfu í Frankfurt á dögunum og svo vissir eru Renault-menn um að bíllinn sé gæðagripur að hann verður seldur með þriggja ára eða 150 þúsund km bilanaábyrgð í öllum Evrópusambandsríkjunum auk Sviss, Króatíu, Noregi og Íslandi.
Renault bílar hafa ávallt selst mikið í Þýskalandi og verið ein fyrirferðarmesta erlenda tegundin á bílamarkaðinum þar. Hjá Renault er því litið á Þýskaland sem nánast hluta heimamarkaðarins. Gæði þýskra bíla og áreiðanleiki hefur farið batnandi samkvæmt bilanatíðnitölum ADAC og því mikilvægt fyrir Renault að standast þeim snúning. Þar sem Laguna er í þeim stærðarflokki bíla sem Þjóðverjar sækjast mjög eftir, er það mikilvægt fyrir Renault að bíllinn sé í a.m.k. jafn innlendu bílunum og þeim japönsku að gæðum.
Frakkarnir telja sig nú vera með það vandaðan bíl að hann eigi eftir að vera meðal þeirra þriggja bíla í sama flokki sem minnst bila og endast best, enda hafi verið gerðar meiri gæðakröfur við hönnun hans, þróun og smíði en nokkru sinni áður hafi verið gerðar í franskri bílaframleiðslu. Þessa vissu sína um gæði nýju Lagúnunnar undirstrika svo Frakkarnir með þriggja ára eða 50 þúsund kílómetra ábyrgð sem tekið er fram að gildi í ES-ríkjunum, Sviss, Króatíu, Noregi og Íslandi.
Í fjölmiðlakynningu á Renault Laguna á Frankfurt bílasýningunni sagði Patrice Ratti þróunarstjóri hjá Renault að menn hefðu vel gert sér grein fyrir veikleikum gömlu Lagúnunnar. Til tals hefði komið að hætta við nafnið og gefa nýja bílnum annað nafn. Horfið hefði verið frá þeirri hugmynd en þess í stað hefðu menn einbeitt sér að gæðamálunum. Allt sem olli vandræðum í eldri gerðinni, m.a. lykilkortið væri ekki lengur til staðar í nýja bílnum. -Við vissum hvað það var sem var til vandræða og við höfum skipt því öllu saman út, sagði Ratti.
Nýja Lagúnan verður fáanleg með bensín- og dísilvélum frá 110 til 175 hö. Tveggja lítra dCi dísilvél sem er ýmist 130 eða 175 ha. þykir áhugaverð.