Ný, öruggari þjófnaðarvörn
27.12.2005
Breskt fyrirtæki sem heitir Auto-txt er byrjað að framleiða einskonar framlengda þjófnaðarvörn fyrir bíla. Kerfið byggist á því að tengja saman þjófnaðarvörn bílsins við farsíma eiganda eða umráðamanns bílsins með hjálp af Bluetooth kerfi. Þetta virkar þannig að ef farsími umráðamanns bílsins er ekki í bílnum þegar hann ekur af stað, þá dregur Bluetoothkerfið þá ályktun að búið sé að stela bílnum og byrjar að senda út GPS staðsetningarmerki. Þannig getur lögregla einfaldlega fylgst nákvæmlega með hvar bíllinn er staddur í veröldinni hverju sinni og nánast gengið að honum vegna þess að ef sá sem á bílnum er drepur á honum fer hann alls ekki í gang aftur. Breska Jaguar og Land Rover bílafyrirtækið hefur svo mikla trú á þessu kerfi að það verður héðan í frá fáanlegt í nýjum Jaguar og Land/Range Rover bílum.
Stærstur hluti allra þjófnaða á nýjum bílum, eða um 97 prósent á sér stað þannig að þjófarnir stela fyrst réttu lyklunum að bílunum samkvæmt upplýsingum frá sænska tryggingafélaginu Folksam. Lyklunum er stolið í innbrotum á heimili eða vinnustaði eða hreinlega úr vösum fólks t.d. í verslunum. Síðan ganga þjófarnir út á bílastæði verslunarinnar og sjá hvar viðkomandi bíll stendur þegar ljósin á honum blikka og svara fjarstýringunni í lyklinum í höndum þjófsins. Hægt er að setja kerfið eftirá í marga nýrri bíla en nánari upplýsingar um það er að finna á heimasíðu Auto-txt.