Ný rafmagns-bílvél frá Bosch
Bosch hefur þróað nýjan rafmótor fyrir bíla. Hann er 110 hö, 32 kíló að þyngd og kemst fyrir í frekar nettum bakpoka. Vegna þess hve fyrirferðarlítill og léttur mótorinn er, er hann talinn opna ýmsa möguleika fyrir bílaiðnaðinn því bæði getur hann verið aðalaflvélin í bílum en líka sem aukaaflgjafi með hefðbundnum brunahreyflum.
Koma má mótornum fyrir hvar sem er í bílum. Hann gæti t,d, verið við afturhjólin og knúið þau meðan hefðbundinn brunahreyfill knýr framhjólin. Þá getur mótorinn líka verið eina aflvélin. Stærðin og aflið gefa hönnuðum mjög frjálsar hendur við að skapa bíla út frá margskonar forsendum og notagildi.
Þessi nýi Bosch rafmótor hefur gerðarheitið SMG 180/120. Í frétt frá Bosch er hann sagður vera viðhaldsfrír. Engir slithlutir séu í honum sem kalla á reglubundið eftirlit og endurnýjun. Þessi nýi mótor er þegar kominn í framleiðslu og er þessa dagana að birtast í rafmagnsútgáfum Smart Fortwo og Fiat 500E