Ný sendibílaþrenning
Frambyggðir og hálfframbyggðir meðalstórir sendibílar eins og VW „rúgbrauð,“ Renault Trafic og fleiri slíkir eru sívinsælir – sem flutninga- og vinnubílar, eða sem fólksflutninga- og fjölskyldufarartæki. Toyota Hiace er einn slíkra bíla og fór af honum gott orð hér á landi fyrir rekstraröryggi. Nú er að koma fram arftaki Hiace og nefnist sá Proace.
Toyota Proace er þó eiginlega ekki Toyota í þeim skilningi. Hann er nefnilega framleiddur fyrir Evrópumarkaðinn hjá PSA í Frakklandi sem Toyota Proace, Peugeot Expert og Citroën Jumpy. Bílarnir koma á Evrópumarkaðinn með vorinu og verða fáanlegir bæði með drifi á tveimur hjólum eða þá sítengdu aldrifi. Samstarf Toyota og PSA af þessum toga er svosem ekki nýtt af nálinni; Toyota hefur um árabil framleitt Toyota Aygo sem Citroën C1 og Peugeot 107.
Þessi umrædda bílaþrenning mun fást í þremur lengdum en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir ennþá. Fjórhjóladrif verður valbúnaður. Það drifkerfi er frá frönsku tæknifyrirtæki sem heitir Dangel og hefur átt langt samstarf við PSA um drifkerfi fyrir bíla.