Ný Suzuki-verksmiðja í Japan
Suzuki Swift GT-1600.
Suzuki er talsvert stór bílaframleiðandi á heimsvísu. Í heimalandinu Japan er fyrirtækið í þriðja sæti, í Indlandi er það í því fyrsta og á heimsvísu í því tíunda og í Kína er það mjög stórt því það hefur ýmist eignarhald eða sterk ítök í fjölmörgum kínverskum bílaverksmiðjum sem framleiða bíla undir kínverskum tegundarheitum, en úr hreinræktuðum Suzuki-hlutum. Fyrirtækinu gengur ágætlega og verksmiðjur Suzuki í heimalandinu og í Evrópu og Asíu ganga á fullum afköstum og hafa ekki undan að framleiða fyrir helstu markaðina sem eru m.a. Evrópa og Indland.
Því hefur verið gripið til þess ráðs að reisa nýja bílaverksmiðju í Sagara í Japan sem framleiða mun 240 þúsund bíla á ári. Í nýju verksmiðjunni, sem tekin verður í notkun 2008 verða byggðir Suzuki bílar af gerðunum Swift, SX4 og Grand Vitara en eftirspurn eftir þeim er mikil og vaxandi á öllum markaðssvæðum Suzuki.
Áætlað er að nýja verksmiðjan nái fullum afköstum um áramótin 2009-2010. Þegar það gerist verða full framleiðsluafköst Suzuki um þrjár milljónir bíla á ári. 1,24 milljónir verða þá byggðir í Japan en 1,76 milljónir utan Japans – einkanlega í Evrópu og Asíu.